Fara í efni
Menning

Hátíðin er hvalreki fyrir tónlistarunnendur

Maria Radeschi tónskáld, Pamela de Sensi flautuleikari og listrænn stjórnandi Windworks í Norðri, Petrea Óskarsdóttir flautuleikari og framkvæmdastjóri hátíðarinnar og Edoardo Dinelli staðartónskáld, á Sjóminjasafninu á Húsavík í gær.

„Hvalreki fyrir alla tónlistarunnendur, ekki síst blásturshljóðfæra,“ segir Sóley Björk Einarsdóttir trompetleikari frá Akureyri og einn hljóðfæraleikara sem koma fram á Windworks í Norðri hátíðinni sem nú stendur sem hæst. „Það er alveg magnað að fá svona hátíð hingað norður ár eftir ár þar sem skapaður er vettvangur fyrir okkur blásarana að koma fram – jafnvel oftar en einu sinni, á ólíkum stöðum hér norðanlands. En þetta er ekki síður tækifæri fyrir okkur sem vinnum við kennslu hér á svæðinu til að kynna hljóðfærin okkar og okkur sjálf sem fyrirmyndir fyrir nemendur í nútíð og framtíð,“ segir Sóley um leið og hún hvetur alla blásara, sérstaklega hér fyrir norðan til að sækja um að koma fram á Windworks hátíðinni, „sem vonandi er komin til að vera.“

Tríóið, Helga Björg Arnardóttir, Snorri Heimisson og Kjartan Óskarsson leika í Flugsafninu á Akureyri 5. ágúst.

Hátíðin er nú haldin í fjórða sinn og hófst 5. ágúst með tónleikum í Flugsafninu á Akureyri. Daginn eftir var leikið á Húsavík í Sjóminjasafninu og munu tónleikar einnig fara fram á Dalvík og í Leifshúsum. Tónleikastaðirnir eru yfirleitt söfn á Norðurlandi og hefur eitt af markmiðum Windworks verið að kynna söfnin og vekja athygli á starfsemi þeirra. Fyrirkomulag hvers dags er því þannig að tónleikar fara fram kl. tvö og svo er önnur efnisskrá kl. þrjú. Á milli tónleikanna er tónleikagestum því í lófa lagt að skoða safnmunina og/eða fá sér hressingu.

Tríóið, Kjartan Óskarsson, Helga Björg Arnardóttir og Snorri Heimisson, á tónleikum í Sjóminjasafninu á Húsavík í gær.

Flytjendur og tónskáld koma víðs vegar að og eru Ítalir áberandi að þessu sinni en einnig heimsækja hátíðina tríó frá Bandaríkunum og annað frá Bretlandi. Staðartónskáld Windworks er að þessu sinni Ítalinn Edoardo Dinelli. Hann hefur samið sjö verk sérstaklega fyrir hátíðina sem öll verða frumflutt á hinum ýmsu tónleikum. Aðspurður sagðist Dinelli hafa fengið hugmynd að verkunum frá listrænum stjórnanda Windworks Pamelu de Sensi. Hún hafi stungið uppá að hann legði út af ekki smærra verki en sjálfri Völuspá. „Ég samdi sjö verk fyrir hátíðina og fjalla fimm þeirra um þessa norrænu goðafræði sem Völuspá byggir á. Efniviðurinn heillar mig mjög og það er mikil áskorun að túlka Völuspá í tónum, sérstaklega þar sem ég hef ekki stóra hljómsveit á sviðinu heldur aðeins fáein blástursljóðfæri,“ segir tónskáldið. „Ég nota því tölvutæknina og rafhljóð meðal annars til að skapa stemningu og hljóðheim til dæmis í lokaverkinu, sjálfum ragnarökum.“ Völuspá segir eins og kunnugt er frá sköpun heimsins allt til ragnaraka.

Flautuleikararnir Petrea Óskarsdóttir, til vinstri, og Pamela de Sensi, á tónleikunum í Flugsafni Íslands á þriðjudaginn.

Kjartan Óskarsson klarínettuleikari frá Reykjavík er nú að koma fram á hátíðinni í þriðja sinn. „Mér þykir afskaplega gaman að koma norður, hitta aðra hljóðfæraleikara og spila við þessar óvenjulegu aðstæður. Þó svo að ekki sé alltaf pláss fyrir marga áheyrendur þá skapast alltaf sérstök nánd milli flytjenda og áheyrenda á Windworks hátíðinni sem mér þykir vænt um. Gæði tónleika fara ekki eftir fjölda áheyrenda heldur miklu frekar eftir upplifun og því hvað við skiljum eftir, samtalinu við áheyrendur, ef svo má að orði komast.“

Hátíðin stendur til 12. ágúst og lýkur með tónleikum í Listasafninu á Akureyri. Því er enn tækifæri til að upplifa blásaratónlist þar sem svo sannarlega ferskir vindar blása bæði úr norðir og suðri, austri og vestri.

Heimasíða Windworks í Norðri