Fara í efni
Menning

Harmur – fjölskylda, fíkn og fjárskuldir

Kvikmyndin Harmur var frumsýnd á föstudag, m.a. í Sambíóunum á Akureyri. Ásgeir Sigurðsson skrifaði handritið að myndinni, leikstýrði henni ásamt félaga sínum Antoni Karli Kristensen og leikur jafnframt aðalhlutverkið. Aðrir leikarar í myndinni eru Jónas Björn Guðmundsson, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, Mikael Emil Kaaber, Aldís Amah Hamilton, Ahd Tamimi, Jóel Sæmundsson og Bjarki Þór Ingimarsson.

Íslenskur raunveruleiki

Harmur er spennutryllir sem inniheldur eitthvað fyrir alla og byggir á sönnum sögum úr íslenskum raunveruleika. Hún fjallar um fjölskyldu í Hólunum sem brestur þegar móðirin byrjar aftur í neyslu og blandar yngri syni sínum, Hrafni, í fjárskuldir sínar.

Frá því Óliver man eftir sér, hefur hann borið ábyrgð á heimilinu. Ólíkt móður hans, sem hefur átt í erfiðleikum með fíkniefni af og til í gegnum lífið, hefur Óliver náð að halda góðu starfi og sjá vel um litla bróðir sinn, Hrafn, sem er í grunnskóla. Þegar Hrafn er áframseldur í annan raunveruleika fer Óliver í kapp við tímann að leita hann uppi í gegnum erfiða, örlagaríka og sláandi nótt.

Pælingar um fjölskylduna og móðurhlutverkið

Í samtali við Akureyri.net sagði Ásgeir að hugmyndin að handritinu hafi kviknað þegar hann var í kvikmyndanámi í Borgarholtsskóla. Þar gerði hann útskriftarmynd og fékk litla frænda sinn, Jónas Björn Guðmundsson, til að leika í myndinni. „Frændi stóð sig svo vel og vá hvað hann er frábær leikari!“ segir Ásgeir og bætir við: „Ég kláraði Borgó og vinur minn Anton var að klára nám í kvikmyndagerð Í Los Angeles. Ég var að fikta með eina hugmynd um fjölskyldu og ákvað að skrifa mig og Jónas Björn inn í handritið. Þá var komin saga um bræður. Svo kom mamman inn í myndina og ég fór að pæla með móðurhlutverkið og hvernig það getur tvístrast.“

„Vildum gera þetta eins raunverulegt og við gátum“

Þeir félagar Ásgeir og Anton Karl Kristensen hafa alltaf haft áhuga á undirheimum og þekkja marga sem hafa lent í eiturlyfjaneyslu. Þeir töluðu við nokkra einstaklinga um hversu harkalegur heimur þetta er og hversu arfgengur sjúkdómur fíknin er. „Það var erfitt að hlusta“, segir Ásgeir, „en við vildum fara inn í þetta og gera eins raunverulegt og við gátum.“

Sumarið 2020 byrjaði Ásgeir á handritinu og tökur hófust í október. Með eftirvinnslu tók ferlið um eitt og hálft ár. Þar sem Ásgeir kom að fjölmörgum þáttum við gerð myndarinnar var hann spurður hvað hefði verið skemmtilegast?

„Kvikmyndagerð er ástríða en það var skemmtilegast að leika“, svarar Ásgeir. „Gaman að ýta á sjálfa mig; push my self to the limit því þarna er harka, blóð, sviti og tár.“ Hann bætir við að það hafi líka verið áskorun að vera bæði að leika og jafnframt að leikstýra.

Að lokum er Ásgeir spurður hvort hann sé kominn með næstu kvikmynd í hausinn? Hann hlær og svarar því játandi en bætir við: „Ég fókusa á að klára þetta og svo fókusa ég á það næsta.“

Erlendar umsagnir

Myndinni hefur verið lýst erlendis sem þroskaðri frumraun leikstjóratvíeykisins Ásgeirs Sigurðssonar og Antons Karls Kristensen sem sýnir hrífandi fléttu spennu- og samfélagsdrama. Ásgeir, sem skrifi handritið og leiki Óliver, sé stórkostlegur á tjaldinu. Nærmyndir (e. close up) á leikarana og þolinmæði við tökur senanna fangi óheillavænlegt andrúmsloft. Tónlist myndarinnar eftir Kára Haraldsson er lýst sem hjartslætti þar sem myndin kafar á myrka staði og sýnir hættu og vonsku sem er allstaðar og miskunnarlaus. - Oldenburg Film Festival 2021

Myndin vann aðalverðlaun á Rhode Island International Film Festival fyrir frumraun nýrra leikstjóra (Directorial Discovery Award).

Meira um kvikmyndina Harm hér að neðan:

Harmur (2021) - Kvikmyndir.is

Come to Harm (2021) - IMDb