Fara í efni
Menning

Hamingjudagar eftir Beckett í Hofi

Verkið Hamingjudagar verður frumsýnt í Black Box í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri föstudaginn 2. september. Þetta var tilkynnt á vef Menningarfélags Akureyrar í morgun og jafnframt að forsölutilboð á miðum yrði til 20. ágúst.

„Hamingjudagar eða Happy Days er eftir heimsfræga, írska nóbelsverðlaunaleikskáldið Samuel Beckett og fjallar um Vinní, frægustu kvenpersónu Becketts. Vinní er ákveðin í því að finnast lífið hamingjuríkt og fallegt, þrátt fyrir að útlitið sé allt annað en bjart. Verkið fjallar um takmarkalausan lífsvilja manneskjunnar og ódauðleika bjartsýninnar og er áreiðanlega lang skemmtilegasta leikrit nóbelshöfundarins sem lætur gamminn geisa með hrífandi húmor, visku og ólíkindi,“ segir á vef MAk.

„Engin önnur en Grímuverðlaunaleikkonan Edda Björg Eyjólfsdóttir leikur Vinní. Forsölutilboð gildir til 20. ágúst! Athugið; aðeins tvær sýningarhelgar á Akureyri áður en sýningar halda áfram í Borgarleikhúsinu.“