Fara í efni
Menning

„Haltu kjafti eða ég set þig í tugthúsið!“

Austurland er ekki Akureyri en góð saga er góð hvar sem hún er sögð! Í bókinni Líkið er fundið segir Ragnar Ingi Aðalsteinsson frá Vaðbrekku sögur af Jökuldælingum, hreint út sagt magnaðar sögur eins og titill bókarinnar ber með sér. Hér á eftir getur að líta tvær sögur úr „Líkinu“:

Haltu kjafti eða ...
Þegar Sigurður G. Tómasson útvarpsmaður var ungur að árum dvaldist hann um skeið austur á Fljótsdalshéraði. Kynntist hann þá Hákoni Aðalsteinssyni frá Vaðbrekku sem í þann tíð var lögregluþjónn á Egilsstöðum. Sigurður var ekki með bílpróf en þar sem hann var þrátt fyrir það liðtækur ökumaður sáu samferðamenn hans stundum í gegnum fingur sér við hann hvað þetta varðaði, einkum á helgum þegar bílstjórarnir voru við skál.

Nú gerðist það eitt sinn að Hákon lögregluþjónn var á frívakt úti að skemmta sér og hafði fengið sér vel í tána. Hann þurfti að snúast aðeins um svæðið en kunni ekki við að aka sjálfur enda hefði slíkt getað gefið slæmt fordæmi. Hann rakst þá á Sigurð G. og bað hann að aka fyrir sig bílnum og Sigurður féllst á það. Óku þeir nú frá einu húsi til annars og teygðist úr túrnum og á endanum sagði Sigurður: „Hákon minn! Finnst þér nú ekki að þetta sé dálítið gróft? Þú ert lögregluþjónninn, fullur, og ég að keyra þig, próflaus?“ Hákon var skjótur til svars: „Haltu kjafti eða ég set þig í tugthúsið!“

Og svo hélt ferðin áfram.

Líkið er fundið

Haukur á Hauksstöðum var fæddur á fjórða áratug 20. aldar. Hann eignaðist bíl ungur að árum, gamlan Ford, og ók á honum um sveitirnar. Haukur var einhleypur en þegar hann var eitthvað á þrítugsaldrinum var kaupakona á dalnum sem honum féll vel við að sögn og heimsótti stundum. Var jafnvel rætt um það meðal sveitunganna að þarna hefði Haukur hugsanlega fundið sér hentugan betri helming.

Þessi kaupakona hvarf svo af dalnum, sporlaust eins og hún kom, enginn vissi hvaðan hún var eða hvert hún fór, en hún var horfin og Haukur varðist allra frétta um það hvar hún væri niður komin. Gárungarnir, sem nóg er af á Jökuldalnum, báru þegar upp á Hauk að hann hefði beðið hennar og fengið afsvar og hann kálað stúlkunni í framhaldi af því. Haukur var hinn versti og bar af sér allar slíkar sögusagnir. Hann var heiðarlegheita maður sem aldrei hafði gert neinum manni neitt, hvað þá konu, og alls ekki líklegur morðingi, enda ekki mikil alvara í þessum áburði frekar en öðru sem fór á milli manna á Jökuldal.

Um það leyti sem stúlkan yfirgaf dalinn gerðist það að ökutæki Hauks, gamli Ford-vörubíllinn, lagði upp laupana nokkru fyrir utan Hauksstaði. Haukur ýtti bílnum ofan fyrir veginn og skildi hann eftir þar á barðinu. Þar stóð bíll Hauks svo næstu áratugi. Var hann orðinn eitt af föstum viðmiðum á svæðinu. Menn töluðu um að þeir væru staddir svo og svo langt utan eða innan við bílinn hans Hauks. Þetta var kennileiti sem allir á dalnum þekktu.

Það gerist svo einhvern tíma að sumarlagi að Vegagerðin er að rýma til fyrir nýjum vegi og þá er gamli Fordinn hans Hauks, það sem eftir var af honum, fyrir þeim. Þeir tóku bílhræið og fluttu það í næsta bílakirkjugarð og tóku svo til við að grafa fyrir nýja veginum. En ekki hafði lengi verið grafið þarna á barðinu þegar þar komu í ljós mannabein. Var þegar haft samband við fornleifa- og jarðfræðinga og þeir komu og könnuðu jarðlög og greindu beinin sem þeir töldu víst, strax við fyrstu sýn, að væru frá landnámsöld. Þótti fundurinn hinn merkasti.

En þegar þetta spurðist út um sveitina rifjuðust upp gamlar sögusagnir og fyrrnefndir gárungar, sem sinntu lítt um fornleifa- eða jarðfræði, komust umsvifalaust að þeirri niðurstöðu að hér væri fundin beinagrindin af kaupakonunni sem Haukur var að gefa auga einhverjum áratugum fyrr. Flaug sagan frá manni til manns og þótti hin ásættanlegasta saga til næsta bæjar. Vandinn var hins vegar sá að Haukur var víðs fjarri. Kom þá í ljós að hann var staddur á heilsuhæli Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði sér til andlegrar og líkamlegrar endurhæfingar. Þótti mönnum illt að geta ekki náð til hans en það mál leystist.

Nokkrum dögum eftir beinafundinn gekk vinur Hauks og frændi, Hákon Aðalsteinsson, sem þá var lögregluþjónn á Egilsstöðum, inn á símstöðina og sendi þaðan eftirfarandi símskeyti:

haukur guðmundsson heilsuhælinu í hveragerði – STOP – líkið er fundið – STOP – ekki koma heim – STOP – hákon

Haukur sat grandalaus inni á hælinu og uggði ekki að sér þegar sendill frá pósthúsinu, fölur á vanga og við öllu búinn, bar honum þetta skeyti. Haukur tók við blaðinu og horfði á það forviða en sendillinn lét sig hverfa umsvifalaust út um dyrnar, tók enga áhættu af frekari samskiptum við þennan mann.