Fara í efni
Menning

Haltu fast í hjartað mitt

Það má með sanni segja að frumsýning Leikfélags MA á Hjartagulli, splunkunýjum söngleik eftir leikstjórann Aron Martin Ásgerðarson, gjörðum af lögum og textum akureyrsku hljómsveitarinnar 200.000 Naglbíta, hafi verið sprengigos. Krafturinn í hljómsveit, leikurum og dönsurum var slíkur að ómögulegt var að sitja kyrr í sætum og eins gott að sóttvarnareglur skildu á milli áhorfendahópa. Og þegar leikurinn stóð sem hæst byrjaði að gjósa á Suðurnesjum.

Höfundurinn hefur prjónað fallega og ævintýralega sögu í kringum söngtexta Naglbítanna, um ungt fólk og leitina að réttri leið í lífinu. Frá heimilisvanda, gegnum umbrot og öldungang til sátta. Aðalpersónan er skólastelpa, skáld, sem á ekki samleið með jafnöldrum sínum, lendir í útistöðum við skólafélagana, á þó góða vinkonu og bróður, sem er orðinn þreyttur á henni og föður sem reynir að stjórna henni. Hún gefst upp, fer að heiman og villist inn í ævintýraheim þar sem eigast við Neondýrin annars vegar og Skuggaprinsinn með börn sín hins vegar. Þar sveiflast milli góðs og ills uns ævintýrið nálgast veruleikann á ný.

Hjartagull er fjölskyldusöngleikur og það má mikið vera ef hann á ekki eftir að lifa lengi og vera tekinn til sýninga hjá öðrum leikfélögum. Verkið sjálft er áhrifamikið og býður upp á margvíslega útsetningu, en sú sem var í Hofi hjá LMA var framúrskarandi góð, og þar voru nemendur skólans í öllum hlutverkum. Tólf manna hljómsveit var pottþétt og útsetningar frábærar, átta manna dansflokkur var sömuleiðis ákaflega góður og dansarnir undirstrikuðu mjög vel það sem var að gerast á sviðinu, sviðshreyfingar hjá stórhópnum öllum voru líka afar vel útfærðar og allt sprúðlandi í lífi. Búningar, hár og förðum afskaplega litríkt og undirstrikaði alvöru og gleði, sviðsmyndin einföld en einkennandi og fullnægjandi með góðum og litríkum ljósum.

Leikgleði einkennir jafnan sýningar LMA og ekki er nokkur skortur á henni í Hjartagulli. Og einhvern veginn hefur tekist að prjóna þessa peysu þannig að hvergi verður fundið lykkjufall. Þessir ungu listamenn skila verki sínu eins og alvanir atvinnumenn, hafa þó sumir aldrei stigið á svið fyrr, en aðrir búa að fyrri reynslu. En heildarmyndin sem gerð var úr hverju atriði fyrir sig og stóra myndin sem sést þegar á allt er litið er heil, litrík, lifandi og sannfærandi. Reynsla af þátttöku í félagsstarfi skóla skilar sér í svona verkefni og það er líka dýrmætt skóla að eiga úrval fólks sem hefur stundað nám í tónlist og dansi og tekið þátt í atburðum af því tagi. Og nú er tekin til starfa listnámsbraut MA, sem býr að áratuga langri samvinnu skólans við tónlistarskóla á svæðinu og svo hafa sviðslistir bæst við.

Oft hefur sá sem þetta ritar sagt að lokinni sýningu Leikfélags MA að þetta verði nú ekki toppað. Þannig var það í fyrra og hitteðfyrra og enn áður. Og þó að það mætti segja einu sinni enn verð ég að leyfa mér að segja að heildarsvipurinn á þessari blöndu af rokktónleikum, dansi og viðkvæmum leiknum atriðum hafi verið meiri en oft áður. Hjartagull er frábær og fjölbreyttur og áhrifaríkur listviðburður.

Allur áttatíu manna skarinn sem að sýningunni stóð á lof skilið fyrir vel heppnað verk. Það er erfitt að nefna nöfn einstakra þátttakenda í svona samstilltu verki, en hjá því verður ekki komist að nefna þau fjögur sem mest á reynir í söng og leik, Rebekku Hvönn Valsdóttur og Birtu Karen Axelsdóttur og svo Þröst Ingvarsson og Pál Hlíðar Svavarsson. Leikhúsgestum er sett fyrir að sjá hvers vegna. Lengri gæti listinn verið. En þess er vert að geta að hljómsveitin lék splunkunýjar útsetningar á Naglbítatónlistinni sem Jóhanna Rún Snæbjörnsdóttir og Íris Orradóttir hafa gert af list og sú síðarnefnda stjórnaði hljómsveitinni á sviði. Dansahöfundar og dansstjórar voru Sunneva Kjartansdóttir og Birta Ósk Þórólfsdóttir. Allt eru þetta nemendur skólans. Leikstjórinn og höfundurinn er sem fyrr segir Aron Martin Ásgerðarson og aðstoðarleikstjóri Egill Andrason. Þeir hafa fallið vel í hópinn.

Næstu sýningar á Hjartagulli eru 25. og 26. mars, og vegna mikillar aðsóknar er í undirbúningi að hafa aukasýningar. Upplýsingar um það verða á mak.is.

Sverrir Páll

  • Að ofan: Bræðurnir Vilhelm Anton og Kári Jónssynir, úr 200.000 Naglbítum, ásamt leikhópnum, eftir frumsýninguna í gærkvöldi.

„Búningar, hár og förðum afskaplega litríkt og undirstrikaði alvöru og gleði, sviðsmyndin einföld en einkennandi og fullnægjandi með góðum og litríkum ljósum,“ segir Sverrir Páll. Hann tók myndina á frumsýningunni í Hofi í gærkvöldi.