Fara í efni
Menning

„Hæ-Tröllum“ í áttunda sinn á laugardag

Það verður söngveisla í Glerárkirkju laugardaginn 2. mars kl. 16 þegar fjórir karlakórar sameina krafta sína á söngskemmtuninni „Hæ-Tröllum“. Karlakór Akureyrar-Geysir stefnir nú í áttunda sinn saman karlakórum til Akureyrar undir þessum formerkjum, í þetta skipti í samtarfi við Karlakór Eyjafjarðar.

„Hæ-Tröllum“ var fyrst haldið árið 2006 og hefur síðan verið haldið með reglulegu millibili. Auk Karlakórs Akureyrar-Geysis og Karlakórs Eyjafjarðar verða þátttakendur að þessu sinni Karlakór Kópavogs og Karlakór Dalvíkur. Kórarnir flytja nokkur lög hver fyrir sig og síðan sameina þeir krafta sína og flytja nokkur klassísk lög úr sögu íslensks karlakórasöngs. Þarna gefst kostur á að heyra og sjá stóran og öflugan kór um 150-160 söngmanna, að því er fram kemur í tilkynningu kóranna. Stjórnendur kóranna eru Sigurður Helgi, Þórður Sigurðarson, Guðlaugur Viktorsson og Valmar Valjaots. Alexander Smári Edelstein leikur undir á píanó.

„Hæ-Tröllum“ hefur verið einn af föstum liðum í fjölbreyttu starfi Karlakórs Akureyrar-Geysis. Á þessu starfsári stóð kórinn að jólatónleikum með Karlakór Eyjafjarðar og á „Hæ-Tröllum“ sameinast á Akureyri söngmenn við Eyjafjörð og gestir frá Kópavogi. Vortónleikar kórsins verða svo haldnir í Ketilhúsinu á Akureyri 24. apríl og í Glerárkirkju 1. maí.