Fara í efni
Menning

Guns N' Roses rokkmessa á Græna hattinum

Stefán Jakobsson, rokksöngvarinn frábæri úr Mývatnssveit, tryllir lýðinn ásamt hljómsveit á Græna hattinum á laugardagskvöldið þegar þar verður haldin Guns N‘ Roses rokkmessa, sem svo er kölluð. Henni þurfti margsinnis að fresta í Covid faraldrinum en „nú er loksins komið að því að rokka Akureyri og Reykjavík,“ segir í tilkynningu.

Dagskrá rokkmessunnar litast mjög af því að liðin eru 35 ár síðan ein þekktasta rokkplata sögunnar, Appetite for Destruction, var gefin út en „aðrir ópusar og þrusu smellir sveitarinnar Guns N´ Roses fá að að sjálfsögðu að fljóta með,“ segir í tilkynningunni.

Flytjendur eru söngvarinn Stefán Jakobsson, sem fyrr segir, Davíð Sigurgeirsson gítarleikari, Franz Gunnarsson sem leikur á gítar og syngur, Jón Svanur Sveinsson, bassaleikari og söngvari og trommarinn Jón Geir Jóhannsson.

Dyr Græna hattsins verða opnaðar klukkan 21.00 og tónleikarnir hefjast klukkustund síðar. Hópurinn verður aftur á ferðinni á Húrra í Reykjavík 3. júní.

Miðasala á heimasíðu Græna hattsins – hér

Facebook síða viðburðarins