Fara í efni
Menning

Guðrún Pálína sýnir sitt rétta andlit í Hofi

Myndlistarsýningin Andlit/Faces verður opnuð í Menningarhúsinu Hofi á laugardaginn, 11. febrúar, klukkan 14.00. Þar sýnir Guðrún Pálína Guðmundsdóttir andlitsmálverk.

„Guðrún Pálína hefur þróað sinn persónulega stíl um áratuga skeið og hvert andlitsmálverk hefur sitt andrúmsloft og stílbragð,“ segir í tilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar. „Andlitsmálverkin leitast við að túlka mannlegt eðli, tilfinningar og sál einstaklingsins.“

Sýningartitillinn, Andlit/Faces, er heiti bókar sem kom út í lok árs 2022. Flest verkin á sýningunni eru einnig til sýnis í bókinni. Öll málverkin eru olíumálverk á málaradúk. Málverk í bókinni spanna feril Guðrúnar Pálínu frá 1984 til 2021.

Sýningin er opin þegar menningarhúsið Hof er opið og stendur til 7. apríl.