Guðrún og Arctic Hawk senda frá sér lag

Söngkonan Guðrún Arngríms og Arctic Hawk (Haukur Pálmason) hafa sent frá sér nýja ábreiðu af sígilda laginu Landslide eftir Stevie Nicks sem flutti það með hljómsveit sinni Fleetwood Mac árið 1975. „Það er til svo mikið af lögum sem mig langar til þess að syngja og taka upp, en þetta lag hefur fylgt mér lengi og ég tengi meira og meira við það, sérstaklega í seinni tíð,“ segir Guðrún við blaðamann Akureyri.net. „Það er textinn aðallega, sem togar í mig.“
Guðrún syngur lagið, en Haukur leikur á píanó, hljómborð og slagverk, auk þess að sjá um upptökur og hljóðvinnslu. Kristján Edelstein leikur á gítara. Lagið hefur verið sett í búning sem er töluvert frábrugðinn upprunalegu útgáfunni. Píanó, hljóðgerflar, slagverk og bæði raf- og kassagítarar mynda nú hljóðheiminn. Þrátt fyrir breytta hljóðfærasamsetningu hefur útgáfan varðveitt mýktina og hlýjuna sem einkennir upprunalega útgáfu Fleetwood Mac, segir í fréttatilkynningu frá dúóinu.
Guðrún, Haukur og Kristján hafa öll tekið virkan þátt í tónlistarlífinu á Akureyri árum saman, en þetta er í fyrsta skipti sem þau senda frá sér lag saman. „Við erum strax farin að vinna í næstu lögum, og þetta samstarf er sko komið til þess að vera,“ segir Guðrún Arngrímsdóttir.
Lagið kom út í lok júlí og hefur því þegar verið streymt í 32 löndum.
Hér má hlusta á lagið á Spotify