Fara í efni
Menning

Jólatónleikar Guðrúnar Árnýjar á laugardag

Guðrún Árný og kvintettinn Ylur, fimm norðlenskir söngvarar, á tónleikunum í Glerárkirkju í fyrra. Söngvararnir eru Pétur Ingólfsson, Pálmi Óskarsson, Rannvá Olsen, Anna Skagfjörð og Bjarkey Sigurðardóttir.

Söngkonan og píanóleikarinn Guðrún Árný heldur jólatónleika í Glerárkirkju næsta laugardagskvöld, 6. desember, klukkan 20.00. Hún er á ferð um landið, verður til dæmis með tónleika í Egilsstaðakirkju á föstudagskvöldið og í Húsavíkurkirkju á sunnudagskvöldið.

„Þetta er í þriðja sinn sem ég held jólatónleika á eigin vegum á Akureyri og er virkilega spennt því það var meiriháttar stemning á tónleikunum í fyrra,“ segir tónlistarkonan við akureyri.net. Hún gaf út jólaplötu á síðasta ári og segist i raun enn að fylgja henni eftir.

„Ég er með sama hóp með mér og á síðasta ári, meðal annars söngvara að norðan; það er kvintettinn Ylur, og svo fæ ég meira að segja leynigest af svæðinu núna.“ Tónlistarkonan gefur vitaskuld ekki upp hver það er, enda yrði viðkomandi þá ekki leynigestur, en segir: „Það verður algjör bomba!“

Kvintettinn Yl skipa Pálmi Óskarsson bassi, Pétur Ingólfsson tenór, Rannvá Olsen alt, Anna Skagfjörð sópran og Bjarkey Sigurðardóttir sópran. Með Guðnýju Árnýju eru líka fiðluleikarinn Chrissie Telma Guðmundsdóttir og Viktoria Tarevskaia sellóleikari.
 

Frá jólatónleikum Guðrúnar Árnýjar í Glerárkirkju fyrir síðustu jól.