Fara í efni
Menning

Guðmundur Ármann sýnir í Bergi á Dalvík

Guðmundur Ármann myndlistarmaður opnar sýningu í Bergi á Dalvík næsta laugardag, 28. maí klukkan 14 opnar. Sýningin ber yfirskriftina Yrkja og þar sýnir Guðmundur 23 ný málverk frá árunum 2021 og 2022, ásamt nokkrum eldri verkum sem eru eins konar undanfarar nýju verkanna.

„Viðfangsefnið er málverk í anda konkret listastefnunnar, en hún hefur birst í öllum listgreinum, svo sem konkret ljóð, tónlist og myndlist. Konkret stefnan spannar tímabilið frá 1917 til 1950/60 og sviðið er til að byrja með fyrst og fremst í Evrópu. Á Íslandi kemur stefnan fram í myndlist, tónlist og ljóðlist á 4. og 5. áratug 20. aldar,“ segir í tilkynningu.

Skyldleiki myndlistar, tónlistar og ljóðlistar

„Viðfangsefnið er málverk í anda konkret listastefnunnar frá fyrri hluta 20. aldar í Evrópu og flokkast sem konkret málverk, stundum líka kallað geómetría og strangflatar málverk,“ segir í tilkynningunni.

„Á Íslandi fengust allnokkrir listamenn við þessa gerð málverks á 4. og 5. áratugnum. Það sem helst einkennir þessa listastefnu er að sjónum er beint að innri lögmálum myndlistar og gengist við því að málverk er tvívítt listaverk og engin tilraun gerð til að sýna fjarvídd eða skírskotun til hins sýnilega úr umhverfinu.

Áherslan er á grunneiginleika málverksins, myndbyggingu, lit, línur og form, án nokkurrar skírskotunar til þekkjanlegra myndefna, landslags, borgarlandslags eða mannlífs. Myndefnið takmarkast því af hinum tvívíða fleti málverksins og engin tilraun er gerð til að líkja eftir neinu þekkjanlegu úr sjónheiminum. Þetta viðfangsefni, konkret myndlist varð til í heimslistinni í byrjun 20. aldar eða kringum 1920. Á Íslandi koma fram myndlistarmenn á árunum um 1940 sem nefndu myndir sínar strangflatarmálverk. Hér voru listamenn að leita inn á við í listinni, og fást við ýmis lögmál sem telja má grundvallarlögmál allra sjónlista. Þetta viðfangsefni listarinnar hefur komið fram af og til og má í því sambandi nefna ljóðabók Ísaks Harðarssonar, Veggfóðraður óendanleiki, frá 1986.

Myndirnar á sýningunni eru tilraun til að raða saman formum, lit, skapa hreyfingu milli formanna og framkalla línur milli litflata sem skapa hreyfingu, samræmi og spennu. Hér er á ferðinni það sama og hjá ljóðskáldi sem raðar saman orðum og tónskáldi sem raðar saman tónum.

Að yrkja í þann jarðveg sem konkret listin hefur plægt var einstaklega gefandi.“

Sýningarstjóri er Elsa María Guðmundsdóttir.

Sýningin verður opin á sama tíma og menningarhúsið Bergs; mánudaga til föstudaga kl. 10-17 og laugardaga kl. 13-16. Lokað er á sunnudögum.