Fara í efni
Menning

„Gott að fara alveg öfganna á milli“

Jóhanna Guðrún í förðunarstólnum hjá Heiðdísi Austfjörð í Samkomuhúsinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Leikfélag Akureyrar frumsýnir í kvöld söngleikinn Chicago,  þar sem umfjöllunarefnið er hin spillta Chicago-borg á þriðja áratug liðinnar aldar. Svik og prettir eru daglegt brauð, eins og Marta Nordal leikstjóri sagði í viðtali sem birtist á Akureyri.net í gær. 

Aðalpersónurnar eru glæpakvendin Velma Kelly, leikin af Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur, og Roxy Hart sem Þórdís Björk Þorfinnsdóttir leikur. Hlutverk Velmu er í raun fyrsta leikhlutverk Jóhönnu Guðrúnar þar sem eru raunveruleg samtöl – ekki bara sunginn texti. Hún er auðvitað þekktari sem söngkona og lék til dæmis aðalhlutverkið í Evítu þegar það verk var sett upp í Hörpu. „Verkið Evíta er bara sungið, allur díalógur er sunginn. Þar náði ég algjörlega að nota mína reynslu sem söngkona. Þannig að þetta er í fyrsta skipti sem ég er í þessari stöðu,“ segir Jóhanna Guðrún um leiklistarferilinn.

Jóhanna Guðrún – glæpakvendið Velma Kelly – á æfingu í vikunni. Ljósmynd: Auðunn Níelsson.

Hún segir það hafa hjálpað sér hve vel er skipað í hlutverkin. Þar séu öll í 100% réttum hlutverkum þannig að hún er ánægð með hvernig hefur gengið að breytast í leikkonuna Jóhönnu Guðrúnu. „Það hefur bara gengið vel. Þegar þú stendur uppi á sviði, ert með Björgvin Franz, Þórdísi og Margréti Eir, sem hafa öll mikla reynslu á þessu sviði, að vera leikarar, þá finnur maður alveg að maður er ekki með sömu menntun og reynslu. Þess vegna er ég í hverju einasta rennsli að reyna að bæta mig.“

Jóhanna segir áhorfendur mega eiga von á góðri skemmtun, allt saman smelli saman í góða sýningu þegar upp er staðið. „Þetta er náttúrlega epískt verk sem við þekkjum öll. Díalógin í þessu er svolítið skemmtileg, það er allt frekar dökkt, en samt er þetta pínu kómískt,” segir hún og bendir á að persónurnar séu léttgeggjaðar þó útlitið sé dökkt. Persónurnar eru þess eðlis að vænta má að þær séu algjörar andstæður þeirra sem stíga á svið til að túlka þær.

Hvernig er að túlka svona persónu, þú samsamar þig væntanlega ekki neitt með Velmu og hennar persónueinkennum?

„Nei, bara nákvæmlega ekki neitt. Ég er svona að byrja að venjast því að líta í spegil þegar ég er komin í fullan skrúða,“ segir Jóhanna en bendir jafnframt á að það geti verið gott að hafa þessar miklu andstæður. „Ég held að það gæti bara verið erfiðara að leika manneskju sem er líkari manni sjálfum. Það getur verið gott að fara alveg öfganna á milli,“ segir Jóhanna Guðrún við Akureyri.net.