Fara í efni
Menning

Gilfélagið: sýning og 30 ára afmælishátíð

Pönkbandið Populus á menningardagskránni „Malpokar leyfðir“ í Deiglunni 11. september síðastliðinn. …
Pönkbandið Populus á menningardagskránni „Malpokar leyfðir“ í Deiglunni 11. september síðastliðinn. Ljósmynd: Aðalsteinn Svanur Sigfússon.

Gilfélagið á 30 ára afmæli um þessar mundir. Af því tilefni verður á morgun, fimmtudag, opnuð sýning á verkum félaga þess í Deiglunni í Listagilinu og á sama stað verður blásið til afmælishátíðar á laugardaginn.

Sýning meðlima Gilfélagsins stendur frá 14. til 19. október og er opin frá klukkan 17.00 til 20.00 virka daga og 14.00 til 17.00 helgina 16. til 17. október. 

Afmælisfagnaður Gilfélagsins á laugardaginn, 16. október, hefst með léttum veitingum og hátíðardagskrá klukkan 17.00 í Deiglunni og stendur fram eftir kvöldi. Aðgangur er ókeypis á báða viðburðina. 

„Gilfélagið var formlega stofnað af áhugafólki um menningarstarfsemi 30. nóvember 1991. Stofnun Gilfélagsins markaði upphaf að uppbyggingu Listagilsins á Akureyri, þegar félagið tók yfir hluta húsnæðis í Grófargili sem þá hafði lokið hlutverki sínu sem iðnaðrhúsnæði og stóð autt,“ segir í tilkynningu frá félaginu. „Með stuðningi Akureyrarbæjar rekur Gilfélagið fjölnotasalinn Deigluna og hefur umsjón með gestavinnustofu. Markmið félagsins er að efla menningar- og listalíf í bænum, auka tengsl almennings við listir og koma á samskiptum norðlenskra listamanna við innlenda og erlenda listamenn.“

Í tilefni 30 ára afmælisins stendur félagið fyrir nokkrum viðburðum og sýningum á komandi mánuðum.

„Fyrsti viðburðurinn var Malpokar leyfðir, menningardagskrá Populus Tremula í Deiglunni þann 11. september, sem þótti takast sérlega vel. 8. janúar opnar 30 ára sögusýning Gilfélagsins sem markar endalok 30 ára afmælishátíðahaldanna. Þar á milli eru aðrir menningar viðburðir á döfinni sem verða auglýstir þegar þar að kemur.

Gilfélagið lítur björtum augum til framtíðarinnar og hyggst vera virkt og mótandi afl í deiglu menningarframboðs á svæðinu um ókomin ár.“

www.listagil.is

 

Frá opnun sýningar Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur í Deiglunni í júlí í sumar. Frá vinstri: Joris Rademaker, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Guðrún Pálína.