Fara í efni
Menning

Gildagur á ný, nokkrar sýningar opnaðar í dag

Bergþór Morthens, Sumarnótt, 2021. Ein mynda á sýningunni Takmarkanir í Listasafninu.
Bergþór Morthens, Sumarnótt, 2021. Ein mynda á sýningunni Takmarkanir í Listasafninu.

Eftir langt hlé vegna Covid-19 verður aftur svokallaður Gildagur í Listagilinu í dag, laugardaginn 29. maí. Þá verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Listasafninu og einnig eru nýjar sýningar í Mjólkurbúðinni, Deiglunni og Kaktus.

Hefð er fyrir því að þegar opnaðar eru nýjar sýningar í Listasafninu þá sameinist listamenn, hönnuðir og verslanir í kring um að skapa hálfgerða karnivalstemningu með opnunum, viðburðum, tónlist og tilboðum í verslunum. „Með þessu samstarfi hefur skapast afar skemmtileg stemning í Listagilinu, svokallaður Gildagur, þar sem fólk nýtur menningar og listar sem og að hitta mann og annan,“ segir í tilkynningu.

Sýningarnar sem opnaðar verða á Listasafninu eru annars vegar Takmarkanir þar sem 17 norðlenskir listamenn sýna og hins vegar Nýleg aðföng þar sem sýnd eru nýleg verk úr safneigninni.

Hér er frétt Akureyri.net frá því í gær um sýningarnar tvær í Listasafninu.

Hér eru nánari upplýsingar um Gildaginn og aðrar sýningar. er að finna hér. 

Í tilkynningu frá Akureyrarbæ eru gestir Gildaga beðnir að deila skemmtilegum myndum með því að nota myllumerkið #gildagur og jafnvel líka #listagilid og #hallóakureyri.

Vegna Gildagsins er Listagilið einungis opið gangandi vegfarendum milli kl. 14-17. Hægt verður að komast að bílastæðum efst og neðst í Listagilinu. Sjá meðfylgjandi mynd.