Fara í efni
Menning

Gamli Þórsmeistarinn kenndi bæjarstjóranum

María Guðnadóttir og Ásthildur Sturludóttir í Laugardalshöllinni á laugardagskvöldið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Það urðu fagnaðarfundir í heiðursstúkunni í Laugardalshöll á laugardagskvöldið þegar tvær konur úr Stykkishólmi hittust fyrir tilviljun á úrslitaleik bikarkeppni kvenna í körfubolta. Þór og Keflavík áttust þá við og heiðursgestir voru bæjarstjórar sveitarfélaganna tveggja, Hólmarinn Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

Á leikinn mættu tvær úr fyrsta bikarmeistaraliðinu í kvennaflokki eins og Akureyri.net sagði frá um helgina, María Guðnadóttir, sem er frá Stykkishólmi, og Þórunn Rafnar. Bikarkeppni kvenna var fyrst haldin veturinn 1974 - 1975 og þær voru einnig í liðinu sem varð Íslandsmeistari veturinn eftir. Þórsarar buðu þeim til sætis í heiðursstúkunni og þá hittust Hólmararnir tveir og höfðu gaman af; þótt hvorug hafi lengi búið í Hólminum þekkjast þær frá fornu fari. Eftir nám í Menntaskólanum á Akureyri og Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni kenndi María um tíma í gamla heimabænum og þjálfaði að auki ungviðið í körfubolta. Einn nemendanna, bæði í skólanum á körfuboltaæfingum, starfar nú sem bæjarstjóri á Akureyri.