Fara í efni
Menning

Frumraun Hljómsveitar Akureyrar í kvöld

Nýstofnuð Hljómsveit Akureyrar – sinfóníuhljómsveit áhugamanna – heldur fyrstu tónleikana í kvöld. Þeir verða í Akureyrarkirkju og hefjast klukkan 20.00. Rétt er að vekja athygli á því að aðgangur er ókeypis en tekið verður við frjálsum framlögum sem renna óskert til verkefnisins Matargjafir Akureyri og nágrenni.

Það var Michael Jón Clarke sem réðst í það verkefni að stofna hljómsveitina og stjórnar henni. Hann ákvað strax að nota gamalt og gott nafn: Hljómsveit Akureyrar en sveit með því nafni var fyrst stofnuð í desember árið 1915 og mun hafa verið fyrsta klassíska hljómsveitin á Íslandi.

  • Mikki, eins og hann kallar sig gjarnan, sagði frá ævintýrinu í samtali við Akureyri.net fyrir rúmu ári – smellið hér til að sjá þá grein.

„Þetta er mjög stór dagur fyrir mig!“ sagði stjórnandinn í samtali við Akureyri.net í dag. Hátt í 30 manns leika í Akureyrarkirkju í kvöld,  á Kertaljósatónleikunum, eins og þeir eru kallaðir. „Okkur hefur tekist að smala saman ótrúlegum hóp af strengjaleikurum. Ég get nefnt nærtækt dæmi; konan mín, sem hefur ekki spilað í meira en 30 ár, æfir sig núna á hverjum degi! Ég mundi líka eftir stelpu sem lærði einu sinni hjá mér, hún hafði ekki spilað í 20 ár en kunni þetta allt þegar hún sótti nóturnar hjá mér!“ segir hann og hlær, glaður í bragði.

Hljómsveitin er ætluð fólki á Akureyri og nágrenni sem spilar á sinfónísk hljóðfæri og langar að spila þannig músík, að sögn Mikka. Nokkrir hljóðfæraleikaranna eru erlendir nemendur í Háskólanum á Akureyri.

Ýmiskonar tónlist tengd jólum hljómar í kirkjunni í kvöld, nefna má Adaggio eftir Albinoni og þá verður sungnar nokkrar aríur úr Messíasi eftir Händel. Vert er að geta þess sérstaklega að frumflutt verður verk eftir Michael sjálfan; Jólin 1971 – einvígið við kirkjuklukkurnar . „Ég verð að segja að nú þegar er búinn að heyra verkið að það er miklu betra en ég hélt!“ segir Mikki og hlær hátt, greinilega mjög spenntur fyrir kvöldinu.

Jólin 1971 voru þau fyrstu sem Michael Clarke varði á Íslandi, og þar vísar hann m.a. í stef sem Akureyringar þekkja vel; stefið sem kirkjuklukkurnar hafa leikið með reglulegu millibili síðustu áratugi. Það var Björgvin Guðmundsson tónskáld sem samdi stefið.