Fara í efni
Menning

Frábær stemning á Fiðringi í Hofi

Grunnskóli Húnaþings vestra bar sigur úr bítum í Fiðringi 2025 með atriðið „Saga okkar, rödd okkar“. Var þetta í fyrsta sinn sem skóli af Norðurlandi vestra tekur þátt í keppninni. Mynd: Sindri Swan

Frábær stemning var í Hofi í gærkvöld þegar hæfileikakeppnin Fiðringur á Norðurlandi fór þar fram í fjórða sinn. Í ár tóku níu skólar þátt í keppninni eða samtals 120 nemendur, úr 8.-10. bekk.

Í fréttatilkynningu segja forsvarsmenn keppninnar að það hafi verið frábært að sjá ungmennin blómstra á sviðinu í leik, dansi, söng og hljóðfæraleik og ekki megi gleyma tæknifólki liðanna sem aðstoðaði fagmennina í Hofi með ljós og hljóð. Umfjöllunarefni atriðanna voru oft á tíðum þung og unga fólkinu lá greinilega mikið á hjarta og magnað hvernig þau náðu að túlka það með sköpunargáfu sinni.

Fiðringur á Norðurlandi er hæfileikakeppni fyrir nemendur í 8.-10. bekk í anda Skrekks í Reykjavík og Skálftans á Suðurlandi. Samtök sveitarfélaga á Norðulandi eystra og Menningarfélag Akureyrar styrkir verkefnið. Á myndinni má sjá atriði Glerárskóla sem vann íslenskuverðlaunin. 

Nýliði vann keppnina

Grunnskóli Húnaþings vestra á Hvammstanga bar sigur úr býtum í keppninni í ár með atriðið „Saga okkar, rödd okkar“ en atriðið fjallaði um baráttu kvenna í gegnum tíðina. Var þetta í fyrsta sinn sem skóli á Norðurlandi vestra tók þátt í keppninni og því frábær frammistaða hjá þessum nýliða. Í öðru sæti lenti Síðuskóli með atriðið „Það sem gerist í sjónum“ og í þriðja sæti var Borgarhólsskóli á Húsavík með atriðið „Þöggun“. Lára Halldóra Eiríksdóttir fulltrúi SSNE (samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra) afhenti vinningshöfum farandverðlaunagrip Fiðrings sem þau hafa hjá sér næsta árið en SSNE er aðalbakhjarl Fiðrings ásamt Menningarfélagi Akureyrar. Verðlaun fyrir góða, skemmtilega eða óvænta notkun á íslenskunni hlaut Glerárskóli fyrir atriðið sitt „Lognið á undan storminum.“

Krakkarnir kusu lagið „Hjörtu“ með Daniil sem Fiðringslagið 2025 og mætti hann á svæðið og gladdi gesti og keppendur í dómarahléinu. Í dómnefnd sátu Bergur Þór Ingólfsson leikhússtjóri, Ingunn Elísabet Hreinsdóttir dansari og kennari á sviðslistabraut MA og París Anna Bergmann fulltrúi ungmennaráðs Akureyrar. Sérlegur dómari fyrir íslenskuverðlaun var Eyrún Huld Haraldsdóttir íslenskukennari í MA.

Kynnar kvöldsins voru Hákon Snorri Rúnarsson og Vilté Petkuté sem héldu uppi góðu stuði milli atriða og peppuðu salinn. Atriðin verða sett fljótlega inn á ungrúv vefinn.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá kvöldinu sem teknar voru af Sindra Swan.