Fara í efni
Menning

„Frábær gjöf“ frá Íslandsbanka

Ólöf Heiða Óskarsdóttir svæðisstjóri einstaklinga hjá Íslandsbanka, Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri og Jón Birgir Guðmundsson, útibússtjóri Íslandsbanka á Akureyri. Myndin er eftir Kristínu Jónsdóttur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Íslandsbanki hefur fært Listasafninu á Akureyri sjö málverk að gjöf, m.a. tvö verka  Jóhannesar Kjarvals og verk Kristínar Jónsdóttur. Eigendur bankans ákváðu fyrir nokkrum misserum að gefa allt listaverkasafn hans til Listasafns Íslands og fleiri viðurkenndra safna.

„Þetta er frábær gjöf, það er mjög ánægjulegt að Íslandsbanki skuli gefa Listasafninu á Akureyri sjö verk úr þessu stóra og fína safni sínu,“ segir Hlynur Hallsson, safnstjóri, við Akureyri.net.

Klassík og tenging við Norðurland

„Við vorum spurð á hverju við hefðum sérstaklega áhuga og svöruðum að við vildum mjög gjarnan leggja áherslu á íslenska klassík og auðvitað eitthvað sem tengist Norðurlandi vegna þess að söfnunarstefna safnsins snýst dálítið um það. Þess vegna er frábært að fá verk eftir Kristínu Jónsdóttur, auðvitað er ánægjulegt að fá tvö Kjarvalsverk og ég er að sjálfsögðu líka mjög ánægður með að fá eitthvað nýtt; eitt verkanna er eftir [Akureyringinn] Sigtrygg Bjarna Baldvinsson, það stærsta af þessum sjö.“

Hlynur nefnir Kjarvalsverkin tvö sem vitaskuld væri mjög mikill fengur í. „Við eigum tvö verk eftir Kjarval svo fjöldi þeirra tvöfaldast!“ Hann segir að án efa sjáist verkin sem Íslandsbanki færði safninu fljótlega á sýningu. 

„Það kom Hörpu [Þórsdóttur] safnstjóra Listasafns Íslands pínulítið á óvart að vildum ekki bara ný verk en það sem Listasafnið á Akureyri vantar frekar er svona klassík,“ segir Hlynur, „en það er líka ánægjulegt að segja frá því í þessu samhengi að safnið er aftur komið með fjármagn til að kaupa verk og þá munum við örugglega kaupa verk eftir yngri listamenn.“

Dýrgripir

„Miklar breytingar hafa orðið á húsnæði bankans undanfarin ár. Bæði hefur útibúum fækkað og í höfuðstöðvum er nú eingöngu starfað í opnu rými. Það hefur gert það að verkum að minna veggpláss er fyrir þessa dýrgripi okkar. Við teljum að verkin séu best komin í vörslum opinberra listasafna og vona ég að hjá þeim geti sem flestir notið þeirra. Við erum því stolt að geta afhent Listasafni Íslands þessa veglegu gjöf,“ sagði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, þegar tilkynnt var um gjöfina á síðasta ári.

Hér má sjá nokkur verkanna sem Íslandsbanki gaf Listasafninu á Akureyri: 

Jóhannes Geir

Jóhannes Kjarval

Jóhannes Kjarval

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson