Fara í efni
Menning

Fossar Eyjafjarðar #2: Heimafoss

Foss vikunnar er Heimafoss í Héðinsfirði. Mynd: Svavar Alfreð Jónsson

Foss vikunnar er Heimafoss. Hann er í Héðinsfirði.

Úr bókinni Gljúfrabúar og Giljadísir:

„Fyrst þegar ég man eftir mér var heimilið mitt „heima“, innan veggja þess, hjá mömmu og pabba, í kojunni með Andrés-blöðin. Síðar varð bærinn minn heima með kirkjuna á brún brekkunnar. Sextán ára fór ég í fyrsta skipti til útlanda. Þegar þeirri ævintýraferð lauk og þotan hóf sig upp af útlandinu fann ég að ég var á leiðinni heim til jöklanna, svalrar golunnar, brimsins og alls sem tók við eftir tollhlið Keflavíkurflugvallar.

Þótt heimaheimur minn fari sífellt stækkandi finn ég alltaf betur hvar rætur mínar eru sterkastar. Ótal margt veldur þeirri rótfestu, ekki síst fólkið sem var mér samferða fyrsta spölinn á ævivegi mínum en líka staðirnir sem eru mér kærir, fjöllin, fjörðurinn, húsin, göturnar, og garðarnir.

Nú hafa fossarnir bæst við þennan heim og ég er svo gott sem fluttur í einn þeirra.“

_ _ _

Fossar Eyjafjarðar eru vikulegur viðburður á Akureyri.net. Á hverjum sunnudegi birtum við einn foss úr bók Svavars Alfreðs Jónssonar; Gljúfrabúar og Giljadísir, sem er myndabók með fimmtíu eyfirskum fossum. Tilvitnun í inngang bókarinnar: „Fossar Eyjafjarðar hafa ekki komist í hóp íslenskra elítufossa. Engu að síður eru þeir allir merkisfossar hver með sínu lagi; sumir háir og renglulegir og lufsast fram af hengifluginu með slitróttum ym en aðrir bosmamiklir og sperra fram bringuna um leið og þeir skutla sér niður þverhnípið með þungum og nötrandi dunum.“

Taka ber fram að Svavar er líka með fossa úr Fjallabyggð í bókinni, en hann bjó lengi í Ólafsfirði og telur svæðið vera part af sínum heimavelli í Eyjafirðinum.