Fara í efni
Menning

Forsölutilboð á Skugga Svein þar til á morgun!

Miðar á leikritið Skugga Svein, sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir í janúar, hafa verið á tilboðsverði í forsölu undanfarið. Síðustu forvöð til að nýta tilboðið er á morgun.

Miðar eru seldir með 25% afslætti á forsölutilboðinu – 4.425 krónur, en venjulegt verð verður 5.900 kr. Ekki er tilviljun að tilboðið gildir til og með 11. nóvember, því það er fæðingardagur höfundarins, Matthíasar Jochumssonar.

„Skugga Sveinn, eftir þjóðskáldið Matthías Jochumsson, var eitt þekktasta og vinsælasta leikverk á Íslandi um áratuga skeið og litríkar persónur þess, Grasa Gudda, Gvendur smali og Ketill skrækur hafa lifað með þjóðinni og tekið sér bólfestu í hjarta hennar. Hér er verkið í nýrri og bráðskemmtilegri útgáfu um þennan þekktasta útlaga Íslands og baráttu hans við laganna verði. Með hlutverk Skugga Sveins fer Jón Gnarr,“ segir í tilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar.