Fara í efni
Menning

Fólkið í blokkinni flytur í Freyvang

Freyvangsleikhúsið setur brátt á svið leikritið Fólkið í blokkinni eftir Ólaf Hauk Símonarson.

„Margir kannast við sögurnar af þessu fólki sem býr í sömu blokk. Um er að ræða hálfgert smásagnasafn sem kom fyrst út á bók 2001,“ segir í tilkynningu frá Freyvangsleikhúsinu. „Leikgerðin var fyrst sett upp af Leikfélagi Reykjavíkur 2008 og var fylgt eftir með diski með lögunum úr verkinu. Í leikgerðinni er sagan nokkuð breytt frá bókinni, þó að persónur séu að miklu leyti þær sömu og húmorinnn sá sami.“

Fólkið í Blokkinni er hjartnæm saga af skrautlegu lífi fólks í blokk sem ákveður að setja upp söngleik og efniviðurinn er það sjálft, að því er segir í tilkynningunni.

„Fjölskyldan Tryggvi og Solla með unglingana sína tvo Söru og Óla eru ekki hin hefðbundna fjölskylda en hvað er hefðbundið?

Hárfinnur hárfíni er í forsvari fyrir hljómsveitina Sóna sem æfir stíft í kjallaranum á meðan Robbi húsvörður reynir ólmur að koma í veg fyrir að söngleikurinn komist á koppinn og hefur almennt allt á hornum sér.

Sjarmörinn Hannes reynir allt hvað hann getur að ganga í augun á Söru.

Slagarar eins og Hárfinnur Hárfíni, Ofurmennið og að sjálfsögðu Fólkið í blokkinni, hljóma í þessari tilteknu blokk.“

Fólkið í blokkinni hjá Freyvangsleikhúsinu er í leikstjórn Kolbrúnar Lilju Guðnadóttur. Tónlistin er í höndum fagmanna undir stjórn Atla Rúnarssonar, með Helga Þórsson í fararbroddi í söng.

Frumsýning verður 24. febrúar og er miðasala á tix.is og í síma 857-5598.