Fara í efni
Menning

Fjörleikahúsið stóð undir nafni – MYNDIR

Kristján Ingimarsson leikari brunaði eftir áhorfendaskaranum á sérútbúnu brimbretti. Ljósmyndir: Daníel Starrason

Mögnuð stemning var í Hofi á laugardagskvöldið þegar grallararnir í hljómsveitinni Hvanndalsbræðrum héldu þar skemmtun; Fjörleikahús Hvanndalsbræðra, ásamt Gísla Einarssyni sjónvarpsmanni og grínista og Akureyringnum Kristjáni Ingimarssyni leikara. Ekki eru ýkjur að halda því fram að viðstaddir hafi skemmt sér konunglega enda hafa bræðurnir þegar tilkynnt að Fjörleikahúsið verði aftur á dagskrá að ári. 

Kristján Ingimarsson kom alla leið frá Danmörku til að taka þátt í sprellinu en Gísli „bara“ úr Borgarnesi. Birgir Ívarsson, ungur og efnilegur bassaleikari úr hljómsveitinni Brekkubræðrum, steig á svið með Hvanndalsbræðrum og þá birtist Karl Örvarsson „óvænt“ í uppklappi og taldi í Tunglskinsdansinn!

Tónlistin féll í góðan jarðveg ekki síður en gamansögurnar og Kristján sló hreinlega í gegn þegar hann endurtók atriði sem hann bauð upp á opnunarkvöld Hofs á sínum tíma og brunaði eftir áhorfendaskaranum á sérútbúnu brimbretti.

Daníel Starrason, sá frábæri ljósmyndari var á staðnum, og býður hér til glæsilegrar myndaveislu frá ógleymanlegu kvöldi.