Fara í efni
Menning

Fjórða Windworks hátíðin haldin á Akureyri

Frá Windworks hátíðinni 2024. Pamela De Sensi flautuleikari kom fram á lokatónleikum WindWorks í Mótórhjólasafninu. Ljósmynd: Þórarinn Stefánsson.

Hátíðin „Windworks í Norðri” verður haldin í fjórða skipti, 5.-12. ágúst en WindWorks er tónleikaröð helguð blásturshljóðfærum. Listrænn stjórnandi er Pamela De Sensi, og framkvæmdastjóri er Petrea Óskarsdóttir. Hátíðin er haldin í söfnum á Norðurlandi eystra og í ár verður boðið upp á fjórtán tónleika, en hjartað á hátíðinni er á Akureyri.

Í fréttatilkynningu segir að dagskráin í ár verði mjög blönduð og fjölbreytt en hátíðin hefst á þriðjudeginum 5. ágúst með tvennum tónleikum í Flugsafni Íslands. Hvor um sig er u.þ.b. hálftími að lengd og eru hinir fyrri kl. 14:00 en seinni kl. 15:00. Á milli tónleika fá gestir tækifæri til að njóta þess sem söfnin hafa upp á að bjóða.

Ég tel mig vera að skapa eða semja hátíð, en ekki skipuleggja

WW í Norðri hóf starfsemi árið 2022. Tvö af helstu markmiðum hátíðarinnar er að stuðla að nýsköpun í tónlist með því að panta ný íslensk verk og frumflytja og svo að kynna söfn sveitarfélaga svæðisins. „Aðsókn að hátíðinni hefur verið frábær síðustu ár og það er dásamlegt að sjá hana vaxa og hátíðina dafna,“ segir Pamela, listrænn stjórnandi hátíðarinnar.

Hafa fundið fyrir auknum áhuga erlendis frá

„Markmið okkar er að búa alltaf til eitthvað nýtt, örvandi og áhugavert, ekki bara fyrir tónleikagesti heldur einnig fyrir tónlistarmenn, tónskáld, nemendur og tónlistarkennara sem sækja hátíðina. Ég tel mig vera að skapa eða semja hátíð, en ekki skipuleggja, því það að velja flytjendur, tónskáld, frumsamin verk, söfn, og setja saman dagskrá er dálítið eins og að semja tónverk.“

„Allt verður að hljóma saman, vera áhugavert og ljúka með smá flugeldasýningu. Við erum líka mjög ánægð að finna aukinn áhuga tónskálda og hljóðfæraleikara erlendis,” bætir Pamela við.

 

T.v. Staðartónskáld ársins í ár er Edoardo Dinelli frá Ítalíu. T.h. Flautuleikarinn Mary Matthews er einn flytjenda á hátíðinni. Myndir: aðsendar

Tónlistarfólk úr ýmsum áttum

Það er gleðilegt að aukinn áhugi er á hátíðinni erlendis frá en margir alþjóðlegir listamenn taka þátt í ár. Fyrst skal nefna staðartónskáld WindWorks 2025 Edoardo Dinelli frá Ítalíu en einnig koma fram endurreisnarhópurinn „Trio Blondel” frá Bretlandi, Alessia Scilipoti flautuleikari frá Ítalíu og frá Bandaríkjunum Mark J. Cramer klarinettleikari og flautuleikarana Mary Matthews og Karen Large.

Fjölmargir íslenskir hljóðfæraleikarar koma fram á WindWorks 2025, m.a. „Aulos Flute Enslemble”, tríóið „Sine Nomine”, trompettleikararnir Sóley Björk Einarsdóttir og Vilhjálmur Ingi Sigurðarson, Páll Szabo fagottleikari og Einar Jóhannesson klarinettleikari.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Windworks.


WindWorks í Norðri er styrkt af: Tónlistarsjóði Menntamálaráðuneytisins, Akureyrabæ, Tónskáldasjóði Rúv og Stef´s, Norðurþing og Istituto Italiano di Cultura í Oslo.