Fara í efni
Menning

Fjölmenni við opnun Safnasafnsins í gær

Hjónin Magnhildur Sigurðardóttir og Níels Hafstein við opnun Safnasafnsins í gær. Á milli þeirra er ein mynda Ísleifs Konráðssonar - Hreindýr á Kringilsárrana og Snjófjall í baksýn. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Fjöldi fólks lagði leið sína á Safnasafnið á Svalbarðsströnd í gær þegar það var opnað með viðhöfn og haldið inn í þrítugasta starfsárið. Safnið var stofnað í febrúar árið 1995 og 30 ára afmælinu er fagnað með 14 nýjum sýningum, mjög fjölbreyttum.

Þetta ótrúlega safn, höfuðsafn íslenskrar alþýðulistar, var stofnað af hjónunum Níelsi Hafstein og Magnhildi Sigurðardóttur og þau hafa rekið það alla tíð. 

„Stofnendur hafa í rúm 30 ár safnað af ástríðu verkum helstu alþýðulistamanna landsins, listamanna sem af ýmsum ástæðum hafa verið á jaðrinum eða utanveltu við meginstrauma, stundum kallaðir næfir eða einfarar í myndlist, en eru í raun beintengdir sköpunarverkinu; sannir, óspilltir og frjálsir,“ segir m.a. á vef safnsins. „Einnig lítur safnið til lærðra listamanna sem fara sínar eigin leiðir í listsköpun og falla þannig að sýninga- og söfnunarstefnu Safnasafnsins.“

Safneignin geymir verk eftir um 300 listamenn, bæði lærða og sjálflærða, eins og það er orðað á vef safnsins, allt frá miðri nítjándu öld til dagsins í dag.

Safnasafnið verður opið daglega kl. 10.00 til 17.00 þar til 22. september.

Fjórar einkasýningar eru á Safnasafninu á þessu ári, m.a. teikningar Thors Vilhjálmssonar rithöfundar, sem hefði átt 100 ára afmæli í ár. Bræðurnir Örnólfur, til vinstri, og Guðmundur Andri sögðu frá verkum föður þeirra, við opnun safnsins í gær.

Hluti mynda Thors Vilhjálmssonar á Safnasafninu.

Safnasafnið opnað í dag – 30 ára afmæli

Fjórar einkasýningar á 30 ára afmælinu