Fara í efni
Menning

Fjölbreyttar Súlur eru komnar út

Forsíðumynd Súlna er frá opnum degi Tvídælu þann 6. júlí 2021. Howell Roberts og Hólmfríður Sveinsdóttir fornleifafræðingar skýra eðli og tilgang könnunarskurða. Hópurinn á myndinni er við gríðarstóra skálatóft í Tungufellslandi, á fornu eyðibýli sem er kallað Krákustaðir. Könnunarskurðurinn sýndi að býlið er frá því fyrir 1104. Ljósmyn: Árni Daníel Júlíusson.

Súlur, tímarit Sögufélags Eyfirðinga, er komið út og flytur að vanda fjölbreytt efni úr fortíð og nútíð, alls 13 greinar eftir 17 höfunda.

„Sigurður Aðalsteinsson segir Kristínu Aðalsteinsdóttur frá flugmannsferli sínum og lætur fljóta með óborganlega gamansögu af Arngrími Jóhannssyni,“ segir í tilkynningu.

„Meðal annars efnis í Súlum ársins 2022 má nefna frásagnir af ótrúlegum lífskjörum tveggja kvenna, hernámsárunum í Hrísey, hinu stórmerka Síldarminjasafni á Siglufirði, séra Jóni í Möðrufelli og niðurlægingu dóttur hans (sem snerist upp í andhverfu sína), nafna hans Sigurðssyni, trésmíðameistara á Dalvík, rannsókn á lífsháttum í Svarfaðardal á miðöldum – og Stóra-Mixmálið er krufið til mergjar.

Sögufélagið fagnar öllum nýjum félagsmönnum en Súlur eru innifaldar í félagsgjaldinu. Formaður félagsins er Jóna Sigurlaug Friðriksdóttir, gjaldkeri Jón Hlynur Sigurðsson og ritari Arnór Bliki Hallmundsson.“