Fara í efni
Menning

Fjölbreytt sumartónlist framundan í Hofi

Sumartónleikar ungra listamanna í Hofi eru fjölbreytt skemmtun. Í þessari viku og þeirri næstu eru þrennir tónleikar og hverjir öðrum ólíkari, klassísk sönglög, djass og popp. Tónleikarnir eru 10., 16. og 18. júní

Á fimmtudaginn kemur, þann 10. júní, mun Halla Ólöf Jónsdóttir söngkona flytja úrval af sönglögum Jórunnar Viðar, en í desember 2018 voru liðin 100 ár frá fæðingu hennar. Steinunn Hailer Halldórsdóttir leikur á píanó og Eydís S. Úlfarsdóttir á víólu. Sönglög Jórunnar eru perlur sem mættu heyrast mun oftar en er og þessir tónleikar gefa okkur tækifæri til að njóta þeirra. Tónleikarnir eru í Hömrum og hefjast klukkan 20.00.

Á fyrri tónleikun í næstu viku, miðvikudaginn 16. júní, klukkan 20.00 mun Diana Sus flytja lög af plötunni, Winter Lullabies, sem hún tók upp í vetur ásamt Risto Laur píanóleikara. Þar er tónlist sem Diana samdi á löngum Covidvetri. Í framhaldi af því mun hún ylja upp með eldheitum sumardjassi. Diana er frá Lettlandi en hefur lokið námi frá skapandi deild Tónlistarskólans á Akureyri og unnið að margvíslegum skapandi verkefnum þess utan. Á tónleikunum kemur hún fram með hljómsveit, en í henni eru auk Diönu, sem syngur og leikur á gítar, Kjartan Valdimarsson, píanó, Pálmi Gunnarsson, bassi, og Ingvi Rafn Ingvason, trommur.

Birkir Blær heldur langþráða tónleika sína í Svarta kassanum á sviði Hamraborgar 18. júní klukkan 20.00, langþráða því upphaflega áttu þeir að verða í mars 2020 en hefur verið frestað nokkrum sinnum vegna ástandsins og aðstæðna. Birkir Blær lauk námi við skapandi deild Tónlistarskólans á síðasta ári en hefur verið við tónlistarstörf í Svíþjóð á Covidvetri. Birkir Blær gaf á síðasta ári út plötuna Patient, sem hann vann með bróður sínum Hreini Orra, sem kemur fram á tónleikunum ásamt Eyþóri Inga Jónssyni. Í bland við lög af plötunni verða flutt splunkuný lög úr smiðju Birkis Blæs.

Allir tónleikarnir eru hluti af listviðburðaröðinni VERÐANDI í tilefni 10+1 árs afmælis Menningarhússins HOFS. Miðar fást á mak.is