Fjallar um eigin átök við hamlandi kvíða
Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, nemandi við sálfræðideild Háskólans á Akureyri gaf út sína fyrstu bók, Ég er ekki fullkominn, fyrr á árinu. Bókin fjallar um átök Sigurðar við hamlandi kvíða í gegnum tíðina og þá miklu vinnu sem hann hefur lagt á sig til þess að takast á við kvíðann. Sigurður vonast til að bókin geti hjálpað þeim sem glíma við kvíða en einnig þeim sem ekki gera það og skilja ekki hvernig það er.
Sigurður segir frá því, í viðtali á vef háskólans, að hugmyndin að bókinni kom upp þegar hann útskrifaðist úr menntaskóla árið 2022. Hann byrjaði fyrst í menntaskóla árið 2016 en hætti stuttu seinna vegna hamlandi kvíða. „Ég upplifði mig oft dálítið einan, þá meina ég þannig að mér fannst enginn vera að glíma við neitt svipað og ég.“ Sigurður vonast til þess að saga hans geti verið fyrirmynd fyrir önnur sem glíma við sambærilegar áskoranir.
„Lykilþátturinn í minni sögu er að þrátt fyrir að lífið sé stundum bara alveg ótrúlega þungt og erfitt þá er hægt að vinna sig upp úr erfiðleikum.“ Dæmi um það sem Sigurður hefur áorkað undanfarið:
- Tilnefndur til Íslensku ungmennaverðlaunanna sem nýliði ársins
- Var í 5. sæti á framboðslista fyrir alþingiskosningar árið 2024
- Útnefndur grasrótarpersóna KSÍ árið 2024
- Hlaut starfsmerki UMFÍ síðasta vor
Einlæg, hlýleg, persónuleg
Sigurður lýsir bókinni sem einlægri, hlýlegri og persónulegri. „Þrátt fyrir að lífið leggi fyrir mann alls konar hindranir verða þessar hindranir oft til þess að styrkja mann og efla.“ Í greininni segir að Sigurður hefur náð góðum árangri í lífinu og er tilbúinn að tala opinskátt um það og langaði hann að vera einlægur í þessu verkefni sem lífið gaf honum.
Frábær háskólabær
Áhugi á sálfræði jókst eftir útgáfu bókarinnar og ákvað Sigurður þá að fara í nám í sálfræði við Háskólann á Akureyri. Sigurður er sveitastrákur af Suðurlandi og í fyrstu ætlaði hann í fjarnám en ákvað í staðin að prófa að flytja til Akureyrar og stunda námið þar. Hann hefur það gott á Akureyri, segir fólkið hafa tekið hlýlega á móti sér og að Akureyri sé frábær háskólabær.