Fara í efni
Menning

Fimm ár á 75 mínútum í Hofi

Fimm ár á 75 mínútum í Hofi

Söngleikurinn Fimm ár er síðasta atriðið í Listviðburðaröð VERÐANDI í tilefni af 10+1 árs afmæli Menningarhússins Hofs.

Fimm ár er ástarsaga sem segir frá fimm ára sambandi rithöfundar, sem vegnar vel og verður fljótt vinsæll, og leikkonu, sem tekst ekki að ná flugi í ferli sínum. Frásögnin er að því leyti sérkennileg að saga leikkonunnar gerist í öfugri tímaröð en rithöfundurinn segir frá sambandinu á sama tíma í réttri röð. Persónurnar mætast aðeins einu sinni í miðju verksins. Þetta er spennandi og býður upp á óvænt andartök.

Fimm ár er einstök leikhúsupplifun sem leikhús- og tónlistaraðdáendur ættu ekki að láta framhjá sér fara. Aðeins verður ein sýning fimmtudaginn 2. september klukkan 20.00 og hún fer fram í Svarta kassa Hamraborgar í Hofi.

Höfundur söngleiksins Fimm ár er Jason Robert Brown og er vel þekktur á stóru söngleikjasviðunum beggja vegna Atlantshafsins og reyndar víðar um veröldina. Þetta er í fyrsta sinn sem söngleikurinn er sýndur hér á landi

Leikarar í Fimm árum eru Rúnar Kristinn Rúnarsson og Viktoría Sigurðardóttir. Í hljómsveitinni eru Einar Bjartur Egilsson, Hildigunnur Halldórsdóttir, Sigurður Halldórsson og Klara Sigurðardóttir. Leikmynd og búninga gerir Klara Sigurðardóttir. Jóhann Axel Andersen þýddi verkið en leikstjóri er Vala Kristín Eiríksdóttir. Pálmi Jónsson sér um video og Kjartan Darri Kristjánsson er tæknimaður.

Sýningin er 75 mínútur og fer fram í svarta kassa Hamraborgar. Miðar eru að vanda seldir á tix.is.