Fara í efni
Menning

Fellir Stefan grímur? Setur hann upp nýjar?

„Það er ekki í hverjum mánuði, hvað þá ágústmánuði, sem nýtt íslenskt smásagnasafn lítur dagsins ljós. Nú hefur það þó gerst.“

Svo segir í tilkynningu um Grímur, safn sagna eftir Stefán Þór Sæmundsson, íslenskukennara við Menntaskólann á Akureyri og rithöfund.

„Bókin inniheldur 17 smásögur, flestar glænýjar og brakandi. Efnistök eru fjölbreytt; meinhæðnar ádeilur, gamansögur, hrollvekja, einlægar sögur um fíkn, meðvirkni og rótleysi og frumleg sýn á jaðarhópa og ýmsa afkima þjóðfélagsins. Sumir þeirra hafa verið feimnismál en höfundur flysjar slíka varnarhjúpa eins og epli og nagar sig inn að kjarnanum.“

Ærslasögur og ljóð

„Stefán Þór hefur áður gefið út tilraunakenndar ærslasögur um skólasystkini úr menntaskóla (Þrítugur 1/3 og Þremillinn) og sömuleiðis ljóðabækurnar Upprisu og Mar, þar sem hann gekk nokkuð nærri sér og segja má að sú vinna gangi á köflum enn lengra í smásögunum. Vissulega skal varast að draga persónu höfundar inn í sögurnar en hann mun þó vart þræta fyrir að eigin reynsla hafi býsna sterk áhrif. Hvort hann fellir einhverjar grímur eða setur upp nýjar er svo önnur saga.“

  • Smásagnasafnið Grímur fæst hjá höfundi og þá verður Penninn Eymundsson með bókina til sölu líkt og fyrri bækur höfundar. Grænamýri á Akureyri gefur bókina út en Háskólaprent annaðist prentun. Útgáfan er öðrum þræði tileinkuð 60 ára afmæli höfundar og 160 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar.