Fara í efni
Menning

Farsinn Stelpuhelgi frumsýndur á Melum

Eyrún, Jenný, Særún og Fanney á æfingu á Melum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Leikfélag Hörgdæla frumsýnir í kvöld Stelpuhelgi eftir bandaríska leikskáldið Karen Schaeffer. Mun það í fyrsta sinn sem verk eftir hana er sett á svið hérlendis. Félagið sýnir að sjálfsögðu á Melum í Hörgárdal sem endranær.

„Þetta er þrælskemmtilegur farsi, aðalpersónurnar eru fjórar konur en svo eru fjórir karlar í aukahlutverkunum. Vinkvennaahópur – bókaklúbbur – ætlar upp í sumarbústað og allar áttu að vera búnar að lesa bókina sem á að tala um,“ sagði leikstjórinn, Gunnar Björn Guðmundsson, í stuttu spjalli við Akureyri.net.  „En auðvitað er enginn búinn að því! Þær ætla bara að skemmta sér og eru allar með ákveðin aukaplön fyrir helgina,“ bætir hann við.

Fanney Valsdóttir, sem fer með eitt aðalhlutverkanna, þekkir vel til á Melum; þetta er 18. sýningin sem hún tekur þátt í með Leikfélagi Hörgdæla. Hefur verið með í þeim flestum síðan 1990.

„Það er alltaf mjög gaman að leika í försum og hér er gott partí framundan; það fer auðvitað allt úrskeiðis sem getur farið úrskeiðis, eins og á að vera í góðum farsa,“ segir Fanney. Hún hlakkar mikið til frumsýningarinnar og ekki síður Eyrún Arna Ingólfsdóttir, sem stígur nú í fyrsta sinn á gamla, góða sviðið á Melum. „Þeir einu sem vita allan sannleikann í góðum farsa eru áhorfendur, sem er mjög skemmtilegt!“ segir hún. Svo margt gerist þegar hver og ein bregður sér frá.

Öll segja þau verkið afar skemmtilegt. „Það eina sem ég get lofað er að þetta er ógeðslega gaman,“ segir Fanney og hlær.

Enda er tilgangurinn að skemmta fólki. „Það er tilvalið fyrir hópa að skella sér saman hingað á Mela og skemmta sér vel eina kvöldstund; upplagt fyrir saumaklúbba, vina- og vinnuhópa að gera sér ferð,“ segir Gunnar Björn leikstjóri.

Að ekki sé talað um bóka- eða lesklúbba. Ef til vill geta þeir lifað sig enn betur inn í fjörið en aðrir!