Fara í efni
Menning

Fantasíuheimur Kate Ilchenko í Deiglunni

Kateryna Ilchenko, tvítug úkraínsk listakona og hönnuður, opnar myndlistarsýningu í Deiglunni á laugardaginn. Hún kom til Íslands í byrjun júní á síðasta ári, fann hér skjól frá stríðinu í heimalandi sínu og býr nú á Akureyri.

Á sýningunni verða sýnd grafík- og vatnslitaverk, svo og bókaskreytingar, auk stafrænna verka þessa unga listamanns, teikningar af forsögulegum dýrum og skepnum.

Þegar Kateryna bjó enn í Úkraínu gerði hún nokkur hundruð myndir fyrir eigin bók um þróun á jörðinni. Nú situr hún við að skrifa bók um skepnur sem kallast Fúríur. Draumur Kate er að gefa báðar bækurnar út.

Kate hefur að auki reynslu sem húðflúrlistamaður og í Deiglunni verða til sýnis upprunalegar skissur hennar af húðflúri.

Deiglan er í Kaupvangsstræti, gegnt Listasafninu á Akureyri þar sem opnaðar verða tvær sýningar á laugardaginn. Sýningin í Deiglunni hefst kl. 13.00 og opið verður til kl. 17.00. Opið er á sama tíma á sunnudag en sýningin stendur aðeins þessa tvo daga. Tekið er fram í kynningu að allir séu velkomnir á opnunina.

Styrktaraðilar Kateryna vegna sýningarinnar eru Dagskráin, Auglit, Geimstofan og Gilfélagið.