Fara í efni
Menning

Fagur blástur frá London og Akureyri

Matilda Lloyd leikur með Lewisham blásarasveitinni undir stjórn John Hargreaves. Ljósmyndir: Sverrir Páll

Það var blásið fagurlega í Hofi á miðvikudagskvöld þegar breskir og íslenskir blásarar önduðu fegurðinni út í salinn á eftirminnilegan hátt.

Undanfarna daga hefur enska blásarasveitin Lewisham Concert Band, sem tengist Lewishamhverfinu í London, verið í heimsókn í Tónlistarskólanum á Akureyri og unnið með C-sveit blásaradeildar skólans. Afrakstur æfinganna kom fram á frábærum tónleikum í Hofi. Þar léku hljómsveitirnar saman og hvor í sínu lagi, Lundúnasveitin að vísu styrkt nokkrum fremstu blásurum úr skólanum. Stjórnendur voru John Hargreaves og Sóley Björk Einarsdóttir.

Einn af hápunktum tónleikanna var þegar Lundúnasveitin flutti trompetkonsert Alexanders Arutunians frá Yerevan í Armeníu. Frábær einleikari var Matilda Lloyd, heimsþekktur og eftirsóttur einleikari, og það leyndi sér ekki í glæsilegum leik hennar og samleik með hljómsveitinni.

Í heild voru þetta glæsilegir tónleikar og ákaflega mikilvægt og uppbyggilegt fyrir hina ungu C-sveitarliða að fá tækifæri til að vinna með svona vönduðu og vel leikandi tónlistarfólki. Hafi þeir þökk sem að þessu stóðu.

Lewisham Concert Band undir stjórn John Hargreaves.

Sameinaðar Lundúnasveitin og Akureyrarsveitin undir stjórn Sóleyjar Bjarkar.