Fara í efni
Menning

Ester, Sigga Dögg og „undraheimur blæðinga“

Ester Hilmarsdóttir, bóndadóttir og skáld úr Aðaldalnum, og kynfræðingurinn Sigga Dögg kynna bækur sínar og lesa upp úr þeim í verslun Eymundsson á Akureyri í kvöld frá kl. 19.30 til 21.00.

Þær „bjóða þig velkomin að fagna með þeim undraheimi blæðinga!“ segir í tilkynningu.

„Ester gaf út sína fyrstu ljóðabók, Fegurðin í flæðinu, en hún fjallar einmitt um blæðingar, í öllu sínu veldi með húmor að leiðarljósi og einlægni.“
 
Sigga Dögg kynfræðingur gaf út Litlu bókina um blæðingar í fyrra, fyrstu íslensku fræðslubókina um blæðingar. „Saman ætla þær stöllur að lesa upp úr verkum sínum og bjóða gesti velkomna í spjall og spögleringar um þetta „viðkvæma“ mál. Öll eru velkomin, óháð því að vera með leg eður ei!“ segir í tilkynningunni.
 
„Að sjálfsögðu má gera kostakjör á sama tíma og næla sér í eintak - eða eintök! Það er sjaldan, ef þá nokkur tíma, sem blæðingar fá sviðsljósið svo gríptu tækifærið og kíktu á okkur á þennan einstaka viðburð,“ segir á Facebook síðu viðburðarins.