Fara í efni
Menning

Er ódrepandi eins og rabarbari

Anna Richardsdóttir hefur gefið menningarlífi Akureyrar mikið en hún hefur starfað sem gjörningarlistakona á Akureyri frá árinu 1990. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Jaðartónlistarhátíðin „Mannfólkið breytist í slím“ fer fram á Akureyri um helgina. Hátíðin er haldin í gömlu iðnaðarhúsnæði við Óseyri; bátasmiðjan Vör var þar fyrst til húsa, til margra ára. Á setningarathöfn hátíðarinnar í gærkvöldi var listakonan Anna Richardsdóttir valin verndari hátíðarinnar í ár.

Anna tók við titlinum af listamanninum Snorra Ásmundssyni sem var verndari hátíðarinnar í fyrra. Anna hélt skemmtilega ræðu við tilefni þar sem hún líkti sér við rabarbara og sagðist vera ódrepandi eins og plantan lífseiga. „Ég elska að koma fram á óvæntum stöðum þar sem enginn býst við því , t.d út á götu, í gúmmíendurvinnslu, út í skógi, á vinnustöðum fólks í hádeginu og svo framvegis. Stundum verða til sögur í verkum mínum en alltaf er ríkulegt frelsi fyrir áhorfandann til að finna út hvað hann sér í verkinu,“ sagði Anna meðal annars í ræðu sinni.

Þetta er í fimmta sinn sem hátíðin er haldin og koma fimmtán tónlistartriði fram á hátíðinni í ár á tveimur kvöldum. Hátíðinni lýkur í kvöld og þá hefst dagskráin kl. 20. Heimilisfangið er Óseyri 16 og enginn aðgangseyrir er á hátíðina.

Tónlistarhátíðin Mannfólkið breytist í slím fer fram í mjög skemmtilegu húsnæði á Óseyri þar sem vítt er til veggja. Tónleikar kvöldsins byrja kl. 20.

Sultan á sviði.

Ragga Rix, yngsti tónlistarmaður hátíðarinnar, mætti til leiks á MBS í gærkvöldi.

Anna Richardsdóttir, verndari MBS, gaf viðstöddum rabarbara við setningarathöfnina.