Fara í efni
Menning

Er ást – líf Helenu eftir andlát Þorvaldar

Listasafnið á Akureyri býður í bíó á morgun, föstudag. Þá verður heimildarmyndin Er ást sýnd í Nýja bíó, mynd sem fjallar um Helenu Jónsdóttur og lífið eftir andlát eiginmanns hennar, Þorvaldar Þorsteinssonar, myndlistarmanns, rithöfundar og skálds.

Myndin er persónuleg og hleypir áhorfandanum mjög nærri viðfangsefninu, segir í tilkynnningu. Leikstjóri er Kristín Andrea Þórðardóttir og tónlistina samdi Úlfur Eldjárn. Sýning myndarinnar hefst klukkan 17.00.

Að sýningu lokinni er gestum boðið á yfirlitssýningu á verkum Þorvaldar, Lengi skal manninn reyna, í Listasafninu, og að ræða við Kristínu Andreu, leikstjóra, og Guðrúnu Pálínu Guðmundsdóttur, sýningarstjóra.

Í tilkynningu segir: „Er ást er saga um sorg. Hún segir frá hvernig Helena Jónsdóttir, kvikmyndaleikstjóri og danshöfundur, tekst á við sviplegan missi eiginmanns síns Þorvaldar Þorsteinssonar sem lést á heimili þeirra í Antwerpen í Belgíu árið 2013, þá aðeins 52 ára gamall. Í myndinni er fylgst með Helenu yfir fimm ára tímabil þar sem hún leitar að styrk til að halda áfram með líf sitt og listsköpun samhliða því að koma arfleifð Þorvaldar í örugga höfn. Heimildarmyndin dregur upp svipmyndir af tveimur listamönnum samtímis því að segja sögu ástar, sorgar og sorgarúrvinnslu þar sem notað er að stórum hluta efni úr persónulegu einkasafni Helenu.“

Er ást var forsýnd á Skjaldborgarhátíðinni síðastliðið haust þar sem hún hlaut Einarinn, áhorfendaverðlaun Skjaldborgar. Frekari sýningum var frestað sökum Covid-19 en myndin var tekin til almennra sýninga í Bíó Paradís 11. mars.

Umsögn dómnefndar á Skjaldborg: „Höfundur nálgast viðkvæmt viðfangsefni af mikilli næmni og tekst að gera úr áhrifamikið verk. Einlæg og hjartnæm mynd um ástina sem minnir mann á að lifa í augnablikinu og vera þakklátur fyrir hvert andartak.“

Myndin er 52 mínútur. Enginn aðgangseyrir.

Hér má sjá brot úr myndinni.