Fara í efni
Menning

Endurskin – textíllist Rósu á bókasafni HA

Ljósmyndir: Rakel Hinriksdóttir

Á bókasafni Háskólans á Akureyri hefur verið sett upp sýning á verkum Rósu Eggertsdóttur, undir yfirskriftinni Endurskin. Opnun sýningarinnar fór fram á fimmtudag, en þar var vel mætt og vöktu fjölbreytt verk Rósu verðskuldaða athygli gestanna.

Rósa er að mestu sjálflærð í hannyrðum og saumum, en hún bjó að því að eiga tvær ömmur sem voru annálaðar handverkskonur. Foreldrar hennar voru líka listræn og voru dugleg að sækja menningarviðburði, þannig kynntist Rósa fjölbreyttum heimi listsköpunar á unga aldri. Endurnýting og endurvinnsla er Rósu ofarlega í hug, en verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera gerð úr taui og öðru gagnlegu efni sem hefur orðið afgangs í gegn um tíðina. Þannig tekur listakonan það sem margir hefðu hent og býr til eitthvað nýtt úr því.

Í sýningarskránni má lesa um uppruna Rósu, á heimili þar sem engu var hent og allt nýtt. Hún hefur tekið þessa list með sér fram á fullorðinsárin og leyft sköpunarkraftinum að töfra fram stóla, vegglistaverk, lampa, teppi, bækur og margt fleira úr því sem hún hefur safnað í gegn um tíðina.

Sýningin verður opin á afgreiðslutíma bókasafnsins, á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum frá 8-16 og á þriðjudögum og fimmtudögum frá 8-18.