Fara í efni
Menning

Ekki bara saga móður heldur saga þjóðar

María Pálsdóttir og Ólafur Ragnar Grímsson í Svanhildarstofu á Hælinu í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, kveðst hafa öðlast alveg nýja sýn á líf foreldra sinna, Svanhildar Ólafsdóttur Hjartar og Gríms Kristgeirssonar, þegar hann las bréf sem Svanhildur skrifaði Grími meðan hún lá á berklahælunum á Vífilsstöðum og Kristnesi í Eyjafirði.

Þetta kom fram í máli Ólafs Ragnars í dag þegar Svanhildarstofa var formlega opnuð á Hælinu – setri um sögu berklanna, sem María Pálsdóttir kom á fót fyrir nokkrum misserum á Kristnesi í Eyjafjarðarsveit.

Hluti Hælisins er nú kenndur við Svanhildi, sem glímdi við berkla megnið af ævinni. Í dag, 20. nóvember, eru 108 ár frá fæðingu Svanhildar en hún lést árið 1966.

Umrædd bréf voru geymd í blárri tösku sem var í fórum fjölskyldunnar í hálfa öld. Ólafur Ragnar hafði ekki hugmynd um innihald töskunnar, aldrei var rætt um bréfin en þau eru nú komin út á bók – Bréfin hennar mömmu – þökk sé Maríu Pálsdóttur, segir forsetinn fyrrverandi. 

Ólafur Ragnar les úr bókinni á Hælinu í dag. Fjölskylda hans var með í för, frá vinstri: tengdasonurinn Karl Pétur Jónsson, Svanhildur Dalla Ólafsdóttir og Guðrún Katrín dóttir hennar, Guðrún Tinna Ólafsdóttir og börn hennar og Karls Péturs, Fanney Petra og Grímur Fannar.

Innsýn í hörmungar

„Þegar lækning fannst loksins við berklum um 1950 sameinaðist þjóðin eiginlega um að gleyma þessu hræðilega tímabili,“ sagði Ólafur Ragnar í dag. 

Nokkur ár eru síðan María greindi forsetanum fyrrverandi frá hugmynd sinni að setri um sögu berklanna og þá segist hann hafa áttað sig á að vitaskuld þyrfti þjóðin að eignast einhvern stað þar sem hún gæti fengið innsýn í þær hörmungar sem berklarnir voru. Hann ákvað því að leggja málefninu lið.

Áhrifarík sýning á glímu þjóðarinnar

„Ég tel að þjóðin sé í mikilli þakkarskuld við Maríu fyrir að hafa haft frumkvæði að því að búa til þetta merkilega safn sem er eiginlega ótrúlega nákvæm og áhrifarík sýning á þessari glímu þjóðarinnar,“ sagði Ólafur Ragnar. „En María ber líka ábyrgð á því að bókin er komin út vegna þess að þegar hún opnaði safnið fyrir þremur árum hér úti á grasflötinni spurði hún mig hvort ekki væru til einhver bréf frá mömmu. Ég kvað nei við því, ég hafði aldrei heyrt um eða rekist á nein bréf.“

María Pálsdóttir las kafla úr bókinni í dag.

Rak í rogastans

Ólafur Ragnar lofaði Maríu að hann skyldi athuga hvort einhver bréf Svanhildar kynnu að leynast í fórum hans. Þegar forsetatíð Ólafs lauk voru 200 kassar af margvíslegum gögnum fluttir á Þjóðskjalasafnið frá Bessastöðum – og þessi gamla, bláa taska. Langan tíma tók að flokka og skrá allt saman, kórónuveirufaraldurinn skall síðan á og Þjóðskjalasafnið var lokað í töluverðan tíma.

Að því kom að Ólafur efndi loforðið við Maríu og gáði hvort einhver bréf móður hans væri að finna á Þjóðskjalasafninu. Það kom honum í opna skjöldu þegar starfsmenn færðu honum stóran bunka. „Mig rak í rogastans að finna tugi bréfa, sem aldrei hafði verið minnst á í fjölskyldunni,“ sagði Ólafur í dag. Í bréfunum var að finna margvíslegar upplýsingar sem hann hafði aldrei heyrt um. „Ég öðlaðist alveg nýja sýn á líf foreldra minna.“

Fulltrúi þessara ungu kvenna

Berklar lögðust ekki síst á ungar konur. „Segja má að móðir mín sé fulltrúi fyrir þessar konur, fullfrísk unglingsstúlka á Þingeyri á þriðja áratug síðustu aldar og glímdi svo við berklana nánast alla sína tíð, nema síðustu 10 árin eða svo,“ sagði Ólafur Ragnar.

Ólafur segir Maríu Pálsdóttur hafa orðið mikinn örlagavald í fjölskyldu hans á síðustu árum, með því að spyrja um bréfin. „Hún minnti mig líka á að þetta væri ekki bara saga móður minnar heldur saga þjóðarinnar vegna þess að þetta bréfasafn móður minnar er líklega með heillegustu bréfasöfnum frá sjúklingum sem til er. Þess vegna ákvað ég að gefa þetta út, vegna þessa að mér finnst það vera mikilvægur lærdómur fyrir fólkið í landinu og framlag til þjóðarsögunnar og þessa safns.“

Margir lögð leið sína á Hælið í dag vegna formlegrar opnunar Svanhildarstofu.

Ólafur Ragnar Grímsson áritaði nokkur eintök af bókinni Bréfin hennar mömmu á Hælinu í dag.