Fara í efni
Menning

Ekkert vantaði nema fleiri mörk – MYNDIR

Daníel Hafsteinsson, Rodri fyrir miðju, og Ívar Örn Árnason fagnað marki Spánverjans á 8. mínútu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn urðu að gera sér jafntefli að góðu í dag þegar þeir fengu HK-inga í heimsókn í 1. umferð Bestu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Miðjumaðurinn Rodri kom KA yfir snemma leiks, gestirnir jöfnuðu rétt fyrir miðjan fyrri hálfleik og þar við sat, þrátt fyrir að KA-strákarnir fengju mörg góð tækifæri til að bæta við mörkum.

KA hafði mikla yfirburði lengstum í leiknum en Arnar Freyr Ólafsson átti stórleik í marki HK og kom nokkrum sinnum í veg fyrir að heimamenn bættu við marki. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.
_ _ _

GLEÐILEGT SUMAR!
Greifavöllur KA var að sjálfsögðu fagurgrænn í dag sem endranær en aðrir grænir blettir eru ekki sjáanlegir í höfuðstað Norðurlands um þessar mundir. Mikið hefur snjóað undanfarið og spáin var slæm fyrir daginn en veðrið slapp fyrir horn, snjókorn féllu til jarðar í þriggja stiga hita og nánast logni meðan leikurinn stóð yfir. Rúmlega 400 áhorfendur voru vel búnir svo engum hefur a.m.k. orðið mjög kalt!

Myndir: Þorgeir Baldursson
_ _ _

GÓÐ BYRJUN
KA-menn byrjuðu af miklum krafti. Strax á 4. mínútu þrumaði Sveinn Margeir Hauksson að marki HK frá vítateig og boltinn fór frétt framhjá markinu hægra megin.

_ _ _

FRÁBÆRT SKOT OG MARKVARSLA
Arnar Freyr markvörður HK gaf tóninn á 7. mínútu: Daníel Hafsteinsson átti fast, hnitmiðað skot utan teigs, boltinn stefndi efst í markhornið vinstra megin en Arnar varði frábærlega í horn.

_ _ _

FYRSTA MARK SUMARSINS
Spænski miðjumaðurinn Rodri braut ísinn á 8. mínútu. Daníel Hafsteinsson tók hornspyrnu frá vinstri, varnarmaður skallaði boltann út til hægri þar sem Bjarni Aðalsteinsson náði honum, sendi strax til baka inn á markteig þar sem Rodri var óvaldur og skoraði með glæsilegum skalla; stýrði boltanum efst í fjærhornið.

_ _ _

HK JAFNAR
Gestirnir náðu að jafna metin á 20. mínútu eftir að þeir fengu aukaspyrnu við hornfánann hægra megin. Þegar boltanum var spyrnt inn á markteiginn tókst KA mönnum ekki að koma honum burt heldur skallaði varnarmaður beint upp í loftið, Kristijan Jajalo markvörður komst ekki að knettinum og hinn hávaxni Atli Þór Jónasson (númer 30) náði að stanga hann í netið. KA-menn mótmæltu kröftuglega, vildu meina að brotið hefði verið á Jajalo en Helgi Mikael Jónasson var ekki á sama máli.

_ _ _

DAUÐAFÆRI
Andri Fannar Stefánsson fékk ákjósanlegt tækifæri til að koma KA yfir á ný á lokaandartökum fyrri hálfleiksins. Hann komst einn gegn Arnari Frey eftir góða sendingu Ásgeirs Sigurgeirssonar en HK-ingurinn varði mjög vel.

_ _ _

DANÍEL Í GÓÐU FÆRI
Daníel Hafsteinsson spreytti sig næstur gegn Arnari Frey markverði snemma í seinni hálfleik. Komst laglega inn í vítateig og í mjög gott færi en Arnar var fljótur út á móti KA-manninum og varði vel.

_ _ _

OG SVO ÁSGEIR...
Þegar tæpur klukkutími var liðinn komst Ásgeir Sigurgeirsson í svipað færi og Daníel áður, Arnar Freyr kom út á móti en fyrirliði KA kom boltanum framhjá honum en þó ekki í netið; boltinn sleikti þverslána.

_ _ _

VIÐAR ÖRN KJARTANSSON
Nýjasti liðsmaður KA, framherjinn Viðar Örn Kjartansson, leysti Ásgeir fyrirliða af hólmi þegar 15 mínútur voru eftir, og reyndar nokkrar að auki. Viðar Örn hefur ekki leikið í töluverðan tíma og var lítt áberandi þennan stutta tíma en spennandi verður að fylgjast með þessum mikla markaskorara þegar lengra líður á leiktíðina.