Fara í efni
Menning

Tónleikasýning á Hárinu í Hofi í ágúst

Tónleikasýning á söngleiknum vinsæla, Hárinu, verður í menningarhúsinu Hofi 21. ágúst. 

„Aðal áherslan þetta kvöld verður á tónlistina sem söngleikurinn er hvað þekktastur fyrir. Lögin vinsælu Að eilífu, Syndir holdsins (Lifi ljósið), Frank Mills, Saurlífi, Allir geta sært og fleiri verða á sínum stað, flutt af hópi frábærra söngvara og tónlistarmanna,“ segir í tilkynningu.

Á sviðinu verða sjö leikarar, fimm manna hljómsveit og tíu manna kór. Leikarar í sýningunni eru Árni Beinteinn, Birgir Sævarsson, Egill Andrason, Ívar Helgason, Jónína Björt Gunnarsdóttir, Rán Ringsted og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir.

Leikstjóri sýningarinnar er Jenný Lára Arnórsdóttir, tónlistarstjóri Guðjón Jónsson og framleiðandi fyrir hönd Rún viðburða er Jónína Björt Gunnarsdóttir. Kór sýningarinnar er Sönghópurinn Rok. 

Forsala á sýninguna hefst á morgun, föstudaginn 6. maí, og vakin er ahygli á því að aðeins verður ein sýning. Þetta er fyrsta sýning Rún viðburða, sem er nýtt viðburðafyrirtæki á Akureyri.

Forsala á söngleikinn er á tix.is og verður sérstakt forsölutilboð fyrsta daginn, að því er segir í tilkynningu.