Fara í efni
Menning

Eilíf átök og deilur um ættarnöfn

Páll Björnsson, prófessor í nútímafræði og sagnfræði við Háskólann á Akureyri, gaf nú á haustdögum út bókina Ættarnöfn á Íslandi: Átök um þjóðararf og ímyndir. Bókin er 324 blaðsíður og ritstjóri er Þorvaldur Kristinsson. Útgefandi er Sögufélag en félagið er helsti útgefandi á sagnfræðilegu efni á Íslandi.

Páll fæddist í Reykjavík árið 1961. Hann nam sagnfræði við Háskóla Íslands og háskólana í Göttingen og Freiburg í Þýskalandi, en lauk síðan doktorsprófi frá Rochester-háskóla í Bandaríkjunum. Hann hefur einkum fengist við rannsóknir á þáttum sem tengjast nútímasamfélagi á 19. og 20. öld, til dæmis þjóðerniskennd, líberalisma og viðhorfum til kynjanna. Eftir hann liggja fjölmargar greinar í tímaritum og bókum. Bók hans Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar vann til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2011. Páll var formaður Sagnfræðingafélags Íslands 2000-2004, annar tveggja ritstjóra tímaritsins Sögu 2003-2008, og hefur einnig starfað innan ReykjavíkurAkademíunnar. Hann hefur kennt við Háskólann á Akureyri í sautján ár.

Verðskuldað rannsóknarefni

Í samtali við Akureyri.net sagði Páll að hugmyndin að bókinni hafi orðið til fyrir allnokkrum árum þegar hann rakst á efni og deilur í gömlum dagblöðum og tímaritum. Þegar hann fór að skoða þetta nánar áttaði hann sig á hvað ættarnafnadeilur Íslendinga voru umfangsmikið mál og að það væri verðugt rannsóknarefni „sem dugði alveg í heila bók og meira en það!“

Deilt um ættarnöfn í 170 ár

Á Íslandi hafa staðið yfir deilur um ættarnöfn nánast sleitulaust frá því um miðbik 19. aldar. Meginmarkmið bókarinnar er að greina hina opinberu umræðu, þ.e. hvaða rök voru notuð, bæði með og á móti, en á köflum urðu deilurnar harðar, hvort sem var í þingsölum eða fjölmiðlum. Um leið er fjallað um áhugaverðar kúvendingar sem hafa orðið í þessum málaflokki, t.d. að 1913 samþykkti Alþingi lög sem heimiluðu fólki að taka upp ný ættarnöfn en tólf árum síðar voru aftur á móti sett lög sem bönnuðu upptöku nýrra ættarnafna. Leitað er svara við því hvernig deilurnar tengjast hinni sögulegu framvindu, atriðum eins og þéttbýlismyndun, uppgangi þjóðernishreyfinga og innleiðingu nýrra þjóðartákna, sífellt nánari tengslum Íslendinga við umheiminn og fjölgun innflytjenda. Einnig er sýnt fram á að sú regla að raða Íslendingum samkvæmt skírnarnafni þeirra í opinberum skrám er sprottin upp úr deilunum um ættarnöfn á fyrstu áratugum 20. aldar.

Í bókinni kemur skýrt fram hversu víða þessar deilur teygja anga sína en þær náðu jafnvel inn á lendur kynþáttahyggjunnar. Þá endurspeglast breytingar á stöðu kvenna mjög ljóslega bæði í umræðunni og löggjöfinni. Einnig segir frá því að á tímabili voru gerðar kröfur um að nýir ríkisborgarar tækju upp íslensk nöfn en þegar heimsfrægur tónlistarmaður sótti um ríkisborgararétt leiddi það til stefnubreytingar.

Kostaði 10 krónur að fá ættarnafn

Á þessu 12 ára tímabili sem upptaka ættarnafna var leyfð, þurfti fólk að sækja um leyfi og borga fyrir það 10 krónur; sem var þónokkur upphæð. Það var því ekki á allra færi að taka sér ættarnafn – þó það væri leyfilegt. Þegar bannið var svo sett á aftur árið 1925, var það með þeim fyrirvara að þeir sem höfðu fengið ættarnöfn fyrir árið 1913 máttu halda þeim. „Það var ákveðinn tvískinnungur falinn í því en það má kannski segja að þarna hafi verið reynt að fara bil beggja að einhverju leyti; að menn hafi ákveðið að gera þetta svona til þess að koma þessu í gegnum þingið. En það er mikilvægt að hafa í huga að það var aldrei einhugur í þessu máli. Ekki 1913 og heldur ekki 1925,“ segir Páll.

Íslendingar einir eftir

Þeir sem aðhylltust föðurnafnasiðinn gerðu það með þeim rökum að hann væri hluti af íslenskri menningu, tengdist íslensku máli og beygingakerfinu; sem ættarnöfn gerðu ekki. Sú rök voru einnig notuð að föðurnafnasiðurinn væri búinn að vera hér lengi við lýði, að allar þjóðir í kringum okkur hefðu lagt þetta af og Íslendingar þeir einu sem væru eftir. Þess vegna væri mikilvægt að verja þennan sið og þá um leið að varna því að ættarnöfn yrðu útbreidd.

Skýringin á útbreiðslu þessara viðhorfa gæti verið sú að þjóðernishyggja nær fótfestu hér á landi áður en ættarnöfn verða algeng, á meðan t.d. í Danmörku kemur þjóðernishyggjan eftir að ættarnöfn hafa náð útbreiðslu, að sögn Páls. Hann bætir við að „þrýstingur á að breyta lagaumhverfinu hefur eitthvað aukist og maður sér það á þeim frumvörpum sem lögð hafa verið fram á síðustu 10 árum þar sem mælt var fyrir um að leyfa upptöku nýrra ættarnafna. Það er ekki í fyrsta sinn sem slíkt var lagt til. Það var t.d. 1955 og 1971 sem lögð voru fram frumvörp að nýjum mannanafnalögum. Þar var lagt til að heimila ætti upptöku nýrra ættarnafna. Nokkur umræða varð um frumvörpin en þau stoppuðu í þinginu.“

Bókin jafnt fyrir áhugafólk og fræðafólk

Deilurnar um ættarnöfn eru raktar í bók Páls, allt til ársins 2020, en enn eru ekki öll kurl komin til grafar í þessu hitamáli.

Í dag er hin opinbera umræða þó orðin hófstilltari. Menn nota ekki lengur eins sterk orð og gert var á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar.

Bókin er skrifuð með eins aðgengilegum hætti og mögulegt er um mál af þessu tagi, segir Páll. Hún á að höfða til áhugafólks jafnt sem fræðafólks. Hægt er að nálgast eintak í öllum helstu bókabúðum og á vef útgefandans, sogufelag.is