Fara í efni
Menning

Drottningar Kristínar Lindu á Bláu könnunni

Kristín Linda sálfræðingur, fyrrum kúabóndi í Aðaldal og blaðamaður og bankastarfsmaður á Akureyri opnar á föstudaginn, 9. september, myndlistarsýninguna DROTTNINGAR, konur, fjöllin, fossarnir ástin og náttúra Íslands á Bláu könnunni í miðbæ Akureyrar.

DROTTNINGAR er heilstæð sýning um 20 olíumálverka þar sem raunveruleiki og ævintýri kallast á og hvergi er til sparað í litum og táknum. Sýningin er frumraun Kristínar Lindu – sálfræðings, fyrirlesara, fyrrum ritstjóra Húsfreyjunnar og kúabónda – í myndlist. „Verkin eru litrík og rómantísk, draga upp heillandi myndir og sögur af barnslegri gleði og leik. Öll málverkin bera í sér sitt ævintýri, hugtök, hugmyndir og tilfinningar og skarta nöfnun, eins og Ævintýri, Dýrð og Gróska,“ segir í tilkynningu.

Kristín Linda ólst í Fnjóskadal, var bankastarfsmaður og blaðamaður á Akureyri í 15 ár, svo kúabóndi í Aðaldal í Þingeyjarsýslu í önnur 15. Hún hefur nú starfað sem sálfræðingur í Reykjavík í 10 ár. „Það er bæði heilsusamlegt og heillandi að glíma við eitthvað nýtt í seinni hálfleik ævinnar. Ef við röltum bara áfram gömlu göturnar fær hvorki hugur né hönd neinar veruleg nýjar áskoranir,“ segir Kristín Linda. „Málverkið var algjörlega framandi fyrir mér fyrir fjórum árum en nú er leikurinn með penslana að lit og myndum dásamlegt áhugamál sem tekur hugann eftir krefjandi dag á sálfræðistofunni,“ segir hún.