Fara í efni
Menning

Dauðinn er fyrst og fremst um lífið

Í bókinni Dauðinn, sem er nýkomin út, ræðir Björn Þorláksson, einn reyndasti blaðamaður þjóðarinnar, við fjölda Íslendinga sem fengu ótímabæran dauða í fangið – ef svo mætti segja.

Björn ræðir meðal annars við dauðvona fólk sem veit að það þarf að kveðja lífið langt fyrir aldur fram. Reynslusögurnar í bókinni eru af ýmsum toga, að sögn Björns, en alls byggir rannsóknarvinna hans á meira en fimmtíu viðtölum.

Ein helsta þungamiðja samtalanna er hvernig hægt er að vinna úr missi og sorg og nota margir viðmælendur tækifærið og gefa almenningi kærkomnar leiðbeiningar og óskir um hvernig þeir telja að hægt sé að bæta viðbrögð og menningu fólks í kring eftir að dauðann ber að garði.

Vanmáttur og ráðaleysi

Bókin var þrjú og hálft ár í smíðum. „Auðvitað voru hlé á milli viðtala og skrifta en ég er búinn að liggja yfir þessu þema ansi lengi og kannski teygir efniviðurinn sig allt aftur til bernskunnar. Mývatnssveitin kemur sem sagt við sögu í bókinni og ekki er Norðurlandið allt upptalið í þeim efnum vegna þess að í hópi sterkustu kaflanna í bókinni eru viðtöl við lækni á Akureyri sem missti dóttur sína og prest sem hefur í tvígang glímt við krabbamein.“

Þar á Björn annars vegar við Gunnar Þór Gunnarsson, hjartalækni, sem lenti í þeirri sáru raun ásamt eiginkonu sinni, að barnung dóttir þeirra lést í höndum Gunnars. Hins vegar er það séra Hildur Eir Bolladóttir, sóknarprestur í Akureyrarkirkju.

Þegar Björn er spurður hvers vegna hann hafi skrifað bók um dauðann segir hann margt hafa komið til.

„Fyrir nokkrum árum upplifði ég mikinn vanmátt og ráðaleysi í eigin skinni þegar systurdóttir mín varð fyrir sárum missi. Mig langaði að leggja lið en vissi ekki hvernig. Vissi ekki hvað var viðeigandi og hvað ekki. Það vakti líka athygli mína og allra í kring að systurdóttur minni tókst að halda áfram og höndla hamingjuna á ný, hún lét missinn ekki buga sig sem er algengt eins og nærri má geta. Ég fór að velta fyrir mér hvort til væru einhver úrræði í samtímanum sem maður kannski vissi ekki um er kemur að sorg, sorgarviðbrögðum og meðferð við sorg,“ segir hann.

Fengum öll dauðann á heilann

„Svo kom covid og við fengum öll dauðann á heilann. Allar fréttir snerust bein eða óbeint um lífshættu og dauða en kannski leið sumum okkar þannig að samt væri ekki við hæfi að ræða dauðann upphátt. Og allt í einu skaut þessari hugmynd upp. Að kannski vantaði bók um endalok lífsins í efnislegum skilningi. Ég var samt býsna lengi að manna mig upp til að trúa því að ég sem blaðamaður hefði rétt á að skrifa samfélagsbók um svo viðkvæmt efni. Þarf kannski prest, sálfræðing eða geðlækni til að skrifa svona bók, hugsaði ég, amatörinn.“

En þú lést vaða!

„Á einhverjum punkti datt mér í hug að það kynni kannski líka að vera styrkur en ekki bara galli að vera fákunnandi og flæktur. Upp úr því þróaðist þessi hugmynd að kortleggja ferðalagið allt frá upphafi sögu þangað til mér fannst ég hafa öðlast næga þekkingu til að smíða bók. Eitt það helsta sem hélt mér gangandi var að kannski kæmi eitthvað gott úr þessari vinnu sem gæti hjálpað öðrum.“

Það má kalla einstætt – ekki satt – að svona bók sé skrifuð með því lagi sem þú vinnur hana?

„Í öllu falli einstætt hér á landi og ég var alls ekki viss um að ég fyndi neitt forlag! Það var því nokkur léttir þegar fyrsti útgefandinn sem ég sýndi formálann að bókinni gerði við mig útgáfusamning samdægurs. Ég upplifði sérstakan létti að sögur fólksins í bókinni sem hafði sýnt mér mikinn trúnað, skyldu fá að hljóma á opinberum vettvangi, eins og fólkið vildi.“

Fyrst og fremst um lífið

En þér fannst sem sagt vanta meiri umræðu um dauðann?

„Ég geri mér grein fyrir að sumir vilja eiga dauðann sem sitt einkamál. Hvort við tölum um dauðann eða ekki verður hver og einn að eiga við sjálfan sig. En við erum mörg hver vegalaus og ég held að dauðinn geti skaðað okkur mest sem hugmynd ef við reynum að stinga honum undir stól. Svo er náttúrlega rétt að geta þess að Dauðinn er fyrst og fremst um lífið af því að hún fjallar um dauðann.“

Einhver lærdómur sem stendur upp úr?

„Hvaða vinnu þeir sem kveðja lífið sáttir hafa unnið. Mjög merkar niðurstöður að mínu mati.“

Og þú blandar saman sjónarhornum, þú tekur viðtöl við fjölda Íslendinga sem hafa fengið dauðann í fangið eins og þú kallar það og blandar svo röddum viðmælenda þinna við ýmsar aðrar pælingar?

„Ég skoða dauðann heimspekilega og mannfræðilega og tipla á guðfræði. Kynni mér hvernig hugmyndir okkar um dauðann breytast frá tíma til tíma. Svo kemur svona aha-augnablik þegar ég les þýskan heimspeking sem telur góða hugmynd að hugsa lífið út frá dauðanum fremur en fæðingunni. Svo vantaði sögumann til að tengja þetta allt saman og ég fann lausn á því máli með aðstoð góðs fólks sem las yfir og leiðbeindi mér.“

Björn kveðst þakklátur mörgum vegna bókarinnar.

„Mig langar að geta þess að Bókaforlagið Tindur sem gefur út bókina er norðlenskt forlag í eigu Helga Jónssonar. Snorri Ásmundsson myndlistarmaður og einn kunnasti Akureyringur samtímans er höfundur verksins á bókarkápu. Enn einn Akureyringur, doktor Sigurður Ingólfsson, las yfir og hjálpaði mikið við ritstjórn. Kristján Frímann Kristjánsson gerði líka glæsilega hluti í hönnun. Bókin er sögð afar falleg og ég er þakklátur þeirri herdeild sem hefur lagt lið. Ætli það séu ekki um 70 manns þegar allt er talið. En þakklátastur er ég öllu hugrakka fólkinu sem talar í bókinni. Ég held að raddir fólksins geti hjálpað mörgum við forgangsröðun í lífinu og það er engin spurning að leiðbeiningarnar hvernig við getum helst lagt lið ef einhver sem við elskum fellur frá eru til bóta.“