Fara í efni
Menning

Dagrún með sýninguna „Leikur“ í Einkasafninu

Dagrún Matthíasdóttir opnar sýninguna Leikur í Einkasafninu í Eyjafjarðarsveit á morgun, laugardag, klukkan 14.00. Sýningin er leikur að efni og rými einkasafnsins, eins og segir í tilkynningu. Sýningin er opin tvær helgar, 9.-10. og 16.-17. júlí, frá klukkan 14.00 til 17.00. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Þórsson.

Við opnun sýningarinnar mun hljóðverkið Gjörningur eftir þá Vinyl Kabbalah & Gilstepup verða frumflutt og var það sérstaklega samið fyrir sýninguna í Einkasafninu. Félagarnir Vinyl Kabbalah & Gilstepup eru miklir áhugamenn um hljóðblöndun og kvikmyndagerð og heita Páll Kristinn Jakobsson og Gilbert Elgin Davíðsson.

Dagrún er búsett á Akureyri og er starfandi listamaður og myndmenntakennari. „Árið 2021 fékk hún þann heiður að vera valin bæjarlistamaður Akureyrar og hefur á starfstímabilinu sett upp einkasýningar á nýjum verkum og tekið þátt í samsýningum. Á vormánuðum opnaði sýning hennar Formflæði í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og stendur sú sýning yfir til 15. ágúst 2022,“ segir í tilkynningu frá Einkasafninu.

„Dagrún lærði í Myndlistaskólanum á Akureyri, kennslufræði og nútímafræði við Háskólann á Akureyri með viðkomu í skiptinámi í Listfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur unnið við utanumhald viðburða og eitt verkefna hennar er List í Alviðru þar sem hún tengir saman listamenn frá Norðurlandi eystra og listamenn á Vestfjörðum í verkefni í gerð umhverfislistaverka. Dagrún hefur einnig séð um rekstur og sýningarstjórn viðurkenndra sýningarstaða á Akureyri, Mjólkurbúðina og DaLí Gallery ásamt samstarfi í Listhópnum RÖSK sem er þekktur fyrir lifandi sýningastarf og gjörninga. Einnig hefur hún tekið virkan þátt í félagsstörfum í Listagilinu og er í stjórn Myndlistarfélagsins.“

Dagrún hefur haldið á þriðja tug einkaýninga, þar af í New York 2011 auk þáttöku í fjölda samsýninga bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur farið reglulega í gestavinnudvöl bæði hér heima og utan landsteinananna. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum listahátíðum erlendis s.s.Kunst I Natur, Fjellfestival í Isfjorden í Noregi (2017, 2019), alþjóðlegu listverkefni á Mauritius í SA-Afríku (2017) og alþjóðlegum gestavinnustofum í Ungverjalandi og á Ítalíu. Á Fjellfestival 2017 flutti hún Gjörninginn Fjallamjólk í lítilli tjörn uppi á Lille Fjellet.

_ _ _

  • Þriðja sumarið í röð býður Einkasafnið-umhverfislistaverk upp á sýningarröð listafólks sem hefur verið boðið til dvalar í safninu og sýnt afrakstur vinnu sinnar í safnhúsinu og umhverfis það. Listafólkið hefur unnið út frá þeim áhrifum sem það hefur orðið fyrir meðan á dvölini stendur. Dagrún Matthíasdóttir er sjöundi þessara sumarlistamanna em sýnir í safninu. Á undan honum hafa listamennirnir: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Arna G. Valsdóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Joris Rademaker, Kristín Reynisdóttir og Pétur Magnússon dvalið og sýnt í safninu. Einkasafnið er sýningastaður í gróðurvin í lækjardragi með skoppandi læk, 10 km sunnan Akureyrar. Þar er boðið upp á einveru og takmarkuð þægindi í litlu húsi.
  • Einkasafnið er verkefni myndlistamannsinns Aðalsteins Þórssonar. Það hýsir safn Aðalsteins „á því sem verður eftir“ af eigin neyslu. Með því er reynt að gefa eins heillega mynd af fyrirferð einstaklingsins í umhverfinu og hægt er. Leitast er við að það sé sjálfbær eining hvað varðar orkuöflun og meðferð úrgangs. Með það að markmiði að vera í jafnvægi við náttúru og umhverfi. Söfnunin hófst 2001, Safnið hefur verið í núverandi húsnæði frá 2018.
  • Einkasafnið stendur við syðri enda þjóðvegs 822 Kristnesvegar uþb. 10 km sunnan Akureyrar. Vefsíða: www.steini.art