Fara í efni
Menning

„Búið þið, bræður, bara tveir einir hérna?“

Akureyringar eru ekki Skagfirðingar eins og flestum er kunnugt! Í höfuðstað Norðurlands búa hins vegar nokkrir þar að vestan, meðal annars Óskar nokkur Pétursson, söngvari og Álftagerðisbróðir. Út var að koma sjötta bókin í flokknum Skagfirskar skemmtisögur og þar kemur Óskar við sögu eins og nærri má geta. Á bókin því að sjálfsögðu erindi við lesendur Akureyri.net!

Sem fyrr er það Sauðkrækingurinn Björn Jóhann Björnsson, blaðamaður á Morgunblaðinu til margra ára, sem tekur efnið saman og ber sú nýja undirtitilinn Fjörið heldur áfram. Fyrri fimm bækurnar komu út á árunum 2011-2016 og bókaútgáfan Hólar gefur út, líkt og áður.

„Að þessu sinni bregður fyrir gamalkunnum sem nýjum sögupersónum. Fyrstan skal nefna kaupmanninn Bjarna Har, heiðursborgara Skagafjarðar, sem féll frá í byrjun þessa árs, á 92. aldursári,“ segir Björn Jóhann. „Um Bjarna hafa verið sagðar margar skemmtilegar sögur og hér bætast við nokkrar í viðbót, m.a. saga af því þegar hann kom þýskum ferðamönnum í opna skjöldu og útvegaði þeim umbeðnar postulínskúlur úr raflínustaurum. Þeir áttu ekki von á að kaupmaðurinn ætti slíkan varning, enda vildu Þjóðverjarnir aðeins láta reyna á þá umsögn um verslun Bjarna Har að þar fengist allt milli himins og jarðar!“

Nokkar sögur úr bókinni

Þá eru í bókinni nokkrar sögur af sr. Baldri Vilhelmssyni, sem þjónaði í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp til fjölda ára. „Margar snjallar sögur hafa verið ritaðar og sagðar um Baldur en færri vita að hann var borinn og barnfæddur Hofsósingur.“

Sjötta bókin hefur að geyma yfir 200 gamansögur, úr nútíð og fortíð, en alls hafa komist á prent um 1.300 sögur og gamanvísur. „Hafa bækurnar notið mikilla vinsælda um allt land, ekki aðeins meðal Skagfirðinga heldur einnig þeirra sem kunna að meta góðan húmor og vilja fá léttmeti til lestrar,“ að því er segir í tilkynningu.

Hér má sjá nokkur sýnishorn úr bókinni:

Frímann Þorsteinsson á Syðri-Brekkum var maður orðsins, og þoldi illa langvarandi þögn. Eitt sinn var hann á sunnudagsrúntinum og kom við á afskekktum bæ langt fram í Eyjafirði. Þar bjuggu hjón sem voru fáskiptin og sögðu fátt er gesti bar að garði. Fylgdi sögunni að konan hefði verið lítið fyrir augað, hvað sem um karlinn mátti segja.

Frímann knúði dyra og útidyrahurðin opnaðist. Hann kynnti sig en fékk litlar undirtektir. Síðan talaði Frímann eins og honum einum var lagið en hjónin voru þögul sem gröfin og störðu á komumann.

Þagnaði þá Frímann, varð hálf óöruggur með sig, en til að segja eitthvað þá spurði hann:

„Búið þið, bræður, bara tveir einir hérna?“

Við svo búið lokaðist hurðin og ók Frímann burtu hið snarasta!

_ _ _

Óskar [Pétursson] skemmti eitt sinn á 1. maí hátíðarhöldum á Húsavík. Þar kom einnig fram gleðisöngvasveit heimamanna, Ljótu hálfvitarnir. Óskar, sem oft hefur sungið á Húsavík með bræðrum sínum og jafnan verið vel tekið, mætti á svæðið ásamt undirleikara og varð hálf hvumsa við þegar dyravörður vatt sér að þeim og spurði höstuglega:

„Eruð þið ljótu hálfvitarnir?“

Það kom fát á Óskar við þessa spurningu, jafnvel þó hann væri vel meðvitaður um álit flestra Þingeyinga á Skagfirðingum. En hann kvaðst ekki hafa móðgast verulega, enda hefði hann sem strákur í Álftagerði oft verið ávarpaður: „Þú ert nú ljóti hálfvitinn!“

Þegar svo þingeyska sveitin Ljótu hálfvitarnir steig á svið á eftir Óskari, hafði talsmaður þeirra, Keldhverfingurinn Sævar Sigurgeirsson, svipaða sögu að segja og Óskar:

„Þegar við hálfvitarnir mættum á svæðið, tók á móti okkur maður sem spurði með þjósti: „Eruð þið þessir ömurlegu Álftagerðisbræður?”

_ _ _

Höskuldur Þráinsson íslenskuprófessor var eitt sinn á ferð um Skagafjörð. Kom þá akandi utan af Skaga og stoppaði í búðinni hjá Bjarna Har. Spurði hann til vegar en Höskuldur var að leita að Trésmiðju Friðriks Jónssonar.

„Já, þú heldur bara áfram hérna götuna,“ sagði Bjarni og hélt áfram, „og beygir svo til vinstri þarna sem gatan liggur til hægri upp að sjúkrahúsinu. Svo ferðu bara áfram þarna niðreftir og beygir svo til hægri. Þetta er þar.“

„Takk,“ svaraði Höskuldur, „og hvað heitir gatan þar sem trésmiðjan er?“

„Hvað heitir hún?“ hváði Bjarni, „það veit ég ekki. Maður þarf ekkert að vita það ef maður á heima hérna.“

_ _ _

Ólafur Ingimarsson, lengi læknir á Sauðárkróki, heimabæ sínum, fluttist suður yfir heiðar og endaði starfsferil sinn hjá Landspítalanum. Hann er býsna lunkinn vísnasmiður og skemmtilegur.

Eitt sinn var hann á göngu á Laugaveginum í Reykjavík. Maður á hjóli, með hund í bandi, átti leið fram úr Óla og lenti hundurinn utan í löppina á lækninum. Óli bað hundinn auðvitað strax afsökunar:

Á Laugavegi labba nett,
þó ljót sé stéttin.
Hundur kom á harða sprett,
hann á réttinn.

_ _ _

Páll Ragnarsson tannlæknir lék, sem kunnugt er, knattspyrnu með Val á sínum yngri árum og tók m.a. þátt í sögufrægum Evrópuleik liðsins gegn Benfica á troðfullum Laugardalsvellinum í september 1968. Fylgdi þar Eusébio eins og skugginn en leikurinn endaði 0-0.

Palli hélt góðum tengslum við liðsfélaga sína í Val og kíktu þeir gjarnan á stofuna hans á Króknum eða slógu á þráðinn. Var þá oft rifjað upp hve mikill keppnismaður Palli var. Eitt sinn sem oftar hringdi síminn á stofunni hjá Palla og Eyrún Þorvaldar, aðstoðarkona hans, svaraði. Spurt var í símann: „Er Sigurpáll við?” Eyrún hváði og enn var spurt: „Já, er þetta ekki á tannlæknastofunni hjá Sigurpáli?“

„Af hverju kallar þú hann Sigurpál?“ spurði Eyrún á móti.

„Það er einfalt, hann þolir ekki að tapa,“ var svarað á hinum enda línunnar og hlegið hátt.

Eyrún fór þá til Palla og sagði honum að það væri spurt eftir Sigurpáli í símanum. Þá kom glott á Palla, hann fór í símann og upphófust líflegar samræður með miklum hlátrasköllum. Þá var þetta gamall liðsfélagi Palla úr Val sem hafði hringt, prakkarinn Hemmi Gunn.

_ _ _

Séra Baldur Vilhelmsson í Vatnsfirði var borinn og barnfæddur Hofsósingur og ólst því upp í Skagafirði. Ásgeir Svanbergsson var um tíma organisti í Vatnsfjarðarkirkju og fór ekki alltaf vel á með þeim Baldri. Eitt sinn, þegar samskipti þeirra voru ekki alveg upp á sitt besta, kom Baldur til hans eftir páskadagsmessu og spurði:

„Hvernig fannst þér ræðan, góði?“

„Ég veit það ekki, var ekki að hlusta,“ svaraði Ásgeir, þurr á manninn. Baldur ítrekaði spurninguna:

„Hvernig fannst þér ræðan, góði?“

„Eins og ég segi,“ sagði organistinn, „ég var ekki að hlusta.“

Hló þá prestur: „he, he, góði, hún var nefnilega frá páskunum í fyrra!“

_ _ _

Uni Pétursson og félagar frá Hofsósi keyptu um árið frambyggðan stálbát, Berghildi SI 137, sem var skráður á Siglufirði. Taka átti við bátnum í Reykjavík og mætti Uni með áhöfnina til Reykjavíkur þar sem fiska skyldi á heimleiðinni. Hins vegar dróst eitthvað á langinn að ganga frá kaupunum og dvöldu þeir félagar á Hótel Esju á meðan beðið var eftir að komast í róður.

Dagarnir liðu hver af öðrum og mönnum var farið að leiðast vistin á hótelinu. Þeir brugðu sér þá í bæinn og skoðuðu næturlífið nokkur kvöld í röð, allir nema Bragi Vill sem var ekki mikið fyrir að fara út á lífið. Þess í stað var hann alla daga og allar nætur uppi á herbergi. Dugði honum að fá fleyg við og við, sem hann dreypti á en svaf þess á milli.

Eina nóttina, eftir heimsóknir í öldurhús borgarinnar, segir Uni við strákana:

„Við verðum að kaupa eitthvað handa Braga til að borða.“ Bragi hafði þá ekki farið með þeim út að borða í einn eða tvo daga. Fóru félagarnir á BSÍ, keyptu þar sviðakjamma og færðu Braga er komið var heim á hótelið. Klukkan var þá langt gengin í fimm að morgni.

Bragi var hæstánægður með að fá kjammann en spurði:

„Getur þú sagt mér eitt, Uni? Hvort er þetta hádegismatur eða kvöldmatur?“