Fara í efni
Menning

Brunagaddur - ný ljóðabók Þórðar Sævars

Þórður Sævar Jónsson, ljóðskáld og þýðandi frá Akureyri, sendi á dögunum frá sér bókina Brunagaddur, þar sem hann fjallar um fyrsta vetur sinn á Akureyri í 22 ár, veturinn 2019 til 2020.

Brunagaddur er óður til vetursins. Eins og í fyrri verkum sínum málar Þórður Sævar myndir af íslenskri náttúru með blöndu af galsa og nákvæmni. Ljóðin fanga þá einstöku upplifun að búa á eyju þar sem veðrið mótar daglega tilveru íbúanna – en einnig þeirra innra landslag,“ segir í tilkynningu frá forlaginu Partus.

„Í Brunagaddi horfir Þórður Sævar beint niður í hyldýpi vetursins og færir okkur þaðan ískaldan en óhjákvæmilegan veruleika, því „veturinn fer aldrei / alveg // það gengur bara mismikið / á forðann”.

Árið 2020 var Þórður Sævar tilnefndur til Maístjörnunnar, ljóðabókaverðlauna Rithöfundasambandsins og Landsbókasafns Íslands, fyrir ljóðabókina Vellankötlu. Auk þess að skrifa ljóð þýðir hann úr grísku og ensku og hefur gefið út þýðingar á verkum eftir Richard Brautigan og Lúkíanos frá Samosata.