Fara í efni
Menning

Börnin gerðu tilraunir með myndasöguformið

Elías Rúni ásamt þátttakendum. Ljósmynd: Almar Alfreðsson.

Um síðustu helgi fór fram fyrsta listvinnustofa verkefnisins Allt til enda - Listvinnustofur barna árið 2023 í Listasafninu á Akureyri. Þá bauð Elías Rúni, myndasöguhöfundur, myndlýsir og grafískur hönnuður, börnum í 3.-6. bekk að gera tilraunir með myndasöguformið og kynnast ólíkum leiðum til að segja sögur í myndum með áherslu á skapandi form og frásögn. Innblástur var sóttur í hversdagsleikann og sagna leitað í minningum og því sem er efst á baugi í samfélaginu.

Frá þessu segir á vef Akureyrarbæjar.

„Börnin tóku virkan þátt í öllu ferlinu, allt frá því að leita sér innblásturs, skapa verkin í samstarfi við Elías Rúna og sýna afraksturinn á sérstakri sýningu sem Hlynur Hallsson safnstjóri opnaði í safnfræðslurými Listasafnsins. Sýningin stendur til 12. nóvember nk.“ segir þar.

„Verkefnið Allt til enda - Listvinnustofur barna hófst árið 2021 en þar fá börn á grunnskólaaldri tækifæri til að láta ljós sitt skína á sinni eigin sýningu sem þau undirbúa frá upphafi til enda. Listvinnustofan með Elíasi Rúna er sjöunda listvinnustofan í verkefninu. Verkefnið í ár er styrkt af Safnasjóði og Akureyrarbæ. Verkefnastjóri er Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi.“

Næsta listvinnustofa verður 18.-19. nóvember undir leiðsögn Friðriks Steins Friðrikssonar, vöru- og upplifunarhönnuðar. Sú smiðja verður fyrir 7.-10. bekk og nánar auglýst síðar.

Ef smellt er hér má sjá nöfn þátttakenda og fjölda mynda frá vinnustofunni.