Fara í efni
Menning

Bóndi og Kerling flytja frumsamda tónlist í Hofi

Bóndi og Kerling. Hjónin Brynjólfur Brynjólfsson 'Bobbi' og Sigríður Hulda Arnardóttir 'Sigga'. Mynd: Aðsend

„Einn textinn er til dæmis byggður 30 ára gamalli minningu,“ segir Brynjólfur Brynjófsson, annar helmingur dúettsins Bóndi og Kerling. Hinn helmingurinn er eiginkona Brynjólfs, Sigríður Hulda Arnardóttir. „Þannig var það, að þegar við Sigga vorum að byrja að spjalla saman og þefa hvort af öðru, bjó hún austan ár og ég vestan ár (í Eyjafjarðarsveit). Sigga var hestakona og hafði eitthvað nefnt rómantíska reiðtúra eftir bökkunum. Tilhugalífið gekk frekar hægt fyrir sig, enda við bæði frekar feimin og óframfærin, kannski aðallega ég,“ segir Brynjólfur, sem er oftast kallaður Bobbi.

30 árum síðar eru þau hjón og eru að gefa saman út geisladisk með frumsömdum lögum

Lagið Eitt lítið orð fjallar einmitt um þennan tíma, þegar langt var á milli og Bobbi var óþarflega ragur að bjóða Siggu í reiðtúrinn rómantíska. „Svo var það eitt sumarkvöld að ég sá tvær manneskjur á hestbaki á rólegu feti í kvöldsólinni á bakkanum hinum megin og taldi víst að þetta væri hún, búin að ná sér í annann karl og ég búinn að missa af lestinni,“ segir Bobbi, en hann fékk þarna spark í rassinn og sló á þráðinn í Uppsali 2, heimili Siggu og þá fór boltinn að rúlla. 30 árum síðar eru þau hjón og eru að gefa saman út geisladisk með frumsömdum lögum. Útgáfutónleikarnir verða haldnir föstudaginn 15. mars í Hömrum í Hofi á Akureyri. 

Geisladiskurinn 'Úr tóngarðinum' kemur formlega út þann 15.mars. Myndin er aðsend.

Hjónin semja lögin saman, en Bobbi segir að engin regla sé á því hver sér um hvað. Sigga semji á píanó, en hann oftast á gítar. Textinn getur komið úr öllum áttum. „Það koma stundum tímabil þar sem lög og textar ryðjast fram meira og minna af sjálfu sér,“ segir Bobbi. „Það gerðist hjá mér síðasta vetur, á því er engin skýring en þess vegna á ég megnið af þessum níu lögum og textum á disknum.“ Öll lögin á disknum urðu til með aðkomu beggja, bætir hann við.

Tónlistarfólkið og hjónin Sigga og Bobbi, dúettinn Bóndi og Kerling. Mynd: Facebook.

Tónleikagestir mega búast við góðum tónleikum, bæði rólegheitum og talsverðu fjöri inn á milli, segir Bobbi. „Við erum að tala um vals, blús, gospel, vögguvísur, sálm, þjóðlagaskotið og djassskotið popp og tvær ábreiður í nýjum og mikið breyttum búningi.“ Hjónin eru alætur á tónlist og það virðist vera að fátt sé þeim óviðkomandi þegar kemur að tónlistinni. Mikið af tónlistarfólki leggur hjónunum lið á tónleikunum, en Bobbi segir að tuttugu manns muni koma fram ásamt þeim. „Það eru ættingjar, vinir og kunningjar sem munu spila á píanó, gítar, kontrabassa, rafbassa, trommur, fiðlu, nikku og saxafón.“ Það væri of mikið verkefni að telja alla upp, segir Bobbi, en helst beri að nefna þær sem lengst hafi brallað í þessu með þeim, en það eru systurnar síkátu úr Reykhúsum, eins og hann kallar þær. Það eru þær Valdís, María, Sigga og Kristín Pálsdætur.
 
Tveir nýstofnaðir kórar munu stíga á svið í fyrsta sinn með Bónda og Kerlingu. Annars vegar er það blandaður kór sem syngur með í gospellagi og hins vegar er það Karlakórinn Glókollar. „Einn allra besti söngfugl okkar á Íslandi er nefnilega Glókollurinn, þó svo að hann sé sá minnsti. Allt er þetta frábært fólk og það er búið að vera einstaklega gaman hjá okkur á æfingum.“ Bobbi vonar að gleðin skili sér til áhorfenda á föstudaginn, en helst óska þau hjónin að fólk komi og eigi góða kvöldstund með þeim. 
 
Miðar á tónleikana eru fáanlegir á mak.is og við innganginn fyrir tónleika. Geisladiskurinn verður til sölu á staðnum.