Menning
Berglind oddviti, Heimir í 2. sæti
25.01.2026 kl. 10:30
Heimir Örn Árnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og formaður bæjarráðs, verður í 2. sæti listans fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor en Berglind Ósk Guðmundsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, í oddvitasætinu. Bæði höfðu sóst eftir efsta sætinu en í yfirlýsingu í morgun lýsa þau stuðningi hvort við annað: Berglind verði efst og Heimir Örn í öðru sæti. Eftir yfirlýsingu sem þessa er öruggt að sú verður niðurstaðan.
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
Samstaða og samvinna í þágu Akureyrar
Undanfarna mánuði hafa átt sér stað mikilvægar umræður innan Sjálfstæðisflokksins á Akureyri um framtíðina, næstu skref og hvernig best sé að mæta kjósendum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2026. Í þeim samtölum hefur eitt verið okkur sérstaklega hugleikið: að sterkasta leiðin fram á við byggist á samstöðu, gagnkvæmu trausti og öflugri liðsheild.
Í þeim anda höfum við, Heimir Örn Árnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins og formaður bæjarráðs og Berglind Ósk Guðmundsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, ákveðið að styðja hvort annað í aðdraganda röðunarfundar fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna á Akureyri. Heimir mun styðja framboð Berglindar til oddvitasætis og Berglind mun styðja Heimi í 2. sæti listans. Þessi ákvörðun er ekki tekin af léttúð heldur byggir á sameiginlegri sýn á það sem skiptir Akureyri mestu máli.
Á síðasta kjörtímabili höfum við séð hversu mikilvægt það er að vinna saman að lausnum sem skila raunverulegum árangri fyrir bæjarbúa. Ábyrg fjármálastjórn, skýr forgangsröðun og lausnamiðuð nálgun hafa verið leiðarljós í störfum Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn. Við finnum sterkt að flokkurinn á áfram erindi við kjósendur, enda eru fjölmörg verkefni fram undan sem kalla á festu, þekkingu og framtíðarsýn.
Við trúum bæði á gildi liðsheildar. Enginn einn einstaklingur er stærri en verkefnið eða flokkurinn sjálfur. Þvert á móti er það samspil fólks með ólíka reynslu, styrkleika og bakgrunn sem skapar sterkan heildarkraft. Endurnýjun og reynsla þurfa að fara hönd í hönd; þar liggur styrkurinn. Þegar traust ríkir og teymisvinna er höfð að leiðarljósi verða ákvarðanir betri og niðurstöðurnar skila sér til samfélagsins.
Sú sátt og samvinna sem nú hefur skapast er að okkar mati skýr yfirlýsing um að hagsmunir bæjarbúa séu settir í fyrsta sæti. Með því að stilla saman strengi viljum við leggja grunn að sterkum lista, öflugri baráttu og áframhaldandi framförum fyrir Akureyri.
Við vonumst til að flokksmenn sjái styrkinn í þessu samstarfi og styðji það á komandi röðunarfundi og hlökkum til að halda áfram samtalinu við félaga okkar og íbúa bæjarins. Markmiðið er skýrt: að vinna fyrir fólkið í samráði við fólkið og tryggja Akureyri sterka framtíð, betri þjónustu og samfélag sem nýtur góðs af ábyrgum og faglegum vinnubrögðum.
Hlökkum til að sjá ykkur á röðunarfundinum þann 7. febrúar næstkomandi!
Sveitarstjórnarkosningar fara fram 16. maí.