Fara í efni
Menning

Benedikt búálfur snýr aftur á svið

Benedikt búálfur snýr aftur á svið

Margir munu gleðjast yfir því að söngleikurinn Benedikt búálfur verður settur á svið á ný í Samkomuhúsinu á Akureyri nú á næstu dögum og verður á fjölunum nánast allan septembermánuð, miðað við áætlaða miðasölu. Eins og önnur leiklistarverk varð búálfurinn fyrir nokkurri röskun vegna farsóttarinnar, en nú er blásið til lífs á ný í betri aðstæðum.

Það eru Leikfélag Akureyrar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, sem setja hinn ævintýralega og vinsæla söngleik eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson á svið í Samkomuhúsinu við leikstjórn Völu Fannell. Leikurinn var frumsýndur árið 2002 og hefur síðan verið einn allra þekktasti barnasöngleikur þjóðarinnar með töfrandi og bráðsmellinni sögu og grípandi tónlist Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar og heillað börn á öllum aldri. Ekki síður fullorðnari börnin.

Söngleikurinn fjallar um vinina Benedikt búálf og Dídí mannabarn og ferðalag þeirra um Álfheima. Tóta tannálfi hefur verið rænt og allur Álfheimur er í hættu. Og úr þessu verður ógurlegt ævintýri, magnað stuð og skemmtun og óvæntar uppákomur, sem ekki verða tíundaðar hér.

Með hlutverk Benedikts fer Árni Beinteinn Árnason en aðrir leikarar eru Björgvin Franz Gíslason, Valgerður Guðnadóttir, Kristinn Óli - Króli, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson og Birna Pétursdóttir, sem hlaut Grímuverðlaun ársins 2021 fyrir ógleymanlega túlkun sína á Daða dreka.

Fyrstu sýningar í þessari lotu verða laugardaginn 4. september klukkan 13.00 og 16.00. Miðasala er í fullum gangi á mak.is og tix.is.