Fara í efni
Menning

Bassi og píanó hittast í Hofi

Þórir Jóhannsson kontrabassaleikari og Ingunn Hildur Hauksdóttir píanóleikari halda tónleika í Hömrum í Hofi um næstu helgi, sunnudaginn 31. október, klukkan 16.00. Á efnisskránni er tónlist eftir íslenska og erlenda höfunda.

Það er ekki algengasta hljóðfæraskipanin að tefla saman bassa og píanói, en þó eru til tónverk samin fyrir þessa hljóðfæratvennu, trúlega samt fleiri sem löguð hafa verið að þessum tveim ólíku hljóðfærum. Á efnisskrá tónleika Ingunnar og Þóris eru verk eftir íslensk og erlend tónskáld, Árna Egilsson, Karólínu Eiríksdóttur og Þórð Magnússon svo og Giovanni Bottesini, Max Bruch og Zoltán Kodály. Ingunn og Þórir hafa unnið saman og komið fram á tónleikum frá því 2012, þegar þau léku saman á alþjóðlegri ráðstefnu kontrabassaleikara í Kaupmannahöfn. Þau hafa síðan haldið tónleika, meðal annars í tónleikaröð Félags íslenskra tónlistarmanna, Klassík í Vatnsmýrinni, í samvinnu við Norræna húsið, og einnig hafa þau leikið í kvintett sem hefur komið fram á vegum Kammermúsíkklúbbsins í Reykjavík og reyndar einnig leikið hér á Akureyri.

Þórir Jóhannsson er Akureyringur, stúdent af tónlistarbraut MA 1987 og stundaði síðan nám í Reykjavík og Manchester og starfaði að því loknu í nokkur ár í Danmörku uns hann flutti heim árið 2000. Hann er fastamaður í Sinfóníuhljómsveit Íslands en auk þess tónlistarkennari og afar virkur í kammertónlist og hefur frumflutt tónlist fyrir kontrabassa, einn eða með píanói eða kammersveit. Eitt þessara verka er á tónleikaskránni, Rhapsodia per Contrabasso et Piano eftir Þórð Magnússon.

Ingunn Hildur á einnig ætt að rekja hingað norður, en hún er Hafnfirðingur, stundaði nám í Tónlistarskóla Reykjavíkur og síðan í Lundúnum og víðar, en hefur um tveggja áratuga skeið komið víða við í íslensku tónlistarlífi, ekki síst í kammertónlist. Ingunn er píanókennari við Tónlistarskóla Garðabæjar og starfar auk þess við Menntaskóla í tónlist auk þess að sjá um tónlist við guðsþjónustur á Landakotsspítala og leikur auk þess í kvintettum og sextettum á vegum Kammermúsíkklúbbsins og hefur þar tekist á við fjölbreytta tónlist, íslenska og erlenda og frumflutt ný íslensk verk.

Það eru sem sagt spennadi og óvenjulegir tónleikar í vændum og miðasala er sem áður á mak.is

Hér má sjá dæmi um það sem vænta má á tónleikunum í Hömrum, hér eru Þórir og Ingunn á sviði Hörpu í útsendingu á meðan á farsóttinni gekk og gestir máttu ekki stíga inn í helgidóm hljómlistarinnar.